Dagbók
Myndir
Greinar
Krækjur
Senda póst

fimmtudagur, mars 4
Allt um Óþelló  
Stórmerkilegt. Núna er ég nýkomin úr síðasta tíma vikunnar, Shakespeare II þar sem ég er aðstoðarkennari fyrir hann elsku Alan. Þessi tími er, eins og nafnið ber með sér, yfirlitskúrs um leikrit Shakespeares. Um það bil sjötíu manns eru skráðir í þennan tíma, en venjulega eru aðeins tíu nemendur sem taka reglulega þátt í umræðum í tímanum. En í þessari viku varð breyting á þessu mynstri. Skyndilega fóru hendur að skjóta upp í loftið, hendur nemenda sem hafa síðustu vikur starað á gólfið til að forðast augnsamband við Alan. Allir virðast hafa eitthvað að segja um Óþelló. Hvað kemur til?

Eins og margt annað í heiminum, þá fylgja bókmenntafræði og umfjöllun um bókmenntaverk fyrri alda ákveðnum tískustraumum. Óþelló, sem var tiltölulega óvinsælt um miðbik aldarinnar, er nú orðið eitt af vinsælustu verkum Shakespeares, og fræðimenn pumpa nú út greinum um leikritið. Ekki er nóg með að meira er skrifað um Óþelló; einnig er hægt að sjá ákveðna þróun í því hvað sagt er um verkið, þróun sem hægt er að setja í samhengi við sögulega atburði sem og þróun bókmenntafræðikenninga.

Í grófum dráttum er hægt að halda því fram að rétt fyrir miðbik aldarinnar var almennt fjallað um Óþelló í tengslum við stríð og heiður og sviðsetningu verka í byrjun sautjándu aldarinnar í Englandi. Eftir miðbik aldarinnar breytist umræðan og fólk fer að velta fyrir sér hvaða hlutverki Iagó gegnir í formgerð sögunnar og hvernig hann dregur saman söguþráðinn. Á áttunda áratugnum fór áherslan að berast meira að Desdemónu og Emelíu og hlutverki kvenna í leikritinu. Á síðari hluta níunda áratugarins var hinn svarti Óþelló sjálfur undir smásjá, og talað var um mismunandi kynþætti í tengslum við samfélagslega uppbyggingu. Og nú síðustu árin virðist áherslan vera að færast yfir á hnattvæðingu, viðskipti, og Íslam í leikritinu.

Til renna hér stoðir undir þessa grófu alhæfingu um þróun Óþellós, fór ég á MLA gagnagrunninn og gerði stutta könnun, mjög óvísindalega. Ég athugaði hvað margar greinar og bækur hafa birst um verkið á hverjum áratug fyrir sig. Taka verður fram að fram að 1963 er skráning verka tilviljanakennd.

1930-40. Ein grein. Ber heitið "Othello and the Revenge of Honour".

1940-50. Ellefu greinar. Aðallega um stríð og sviðsetningu.

1950-60. 32 verk. Aðallega um sviðsetningu, formgerð og tengsl leikritsins við sögulega atburði og önnur sautjándu aldar verk. Nokkuð um orðsifjafræði.

1960-70. 157 verk. Íagó, Íagó, Íagó! Formgerð leikritsins og textatengsl einnig áberandi. Desdemóna fer að birtast.

1970-80. 278 verk. Samskipti kynjanna, staða kynjanna, kynlíf, sálfræðigreiningar, og póstmódernísk textatengsl. Kynþáttagreining fer að verða vinsæl.

1980-90. 333 verk. Kynþáttagreining mest áberandi, og er Afríka leiðarminni í þeirri greiningu. Kynjafræðin er minna áberandi en á síðasta áratugnum en er enn til staðar, nú greind út frá tungumálaforsendum fremur en sálfræði. Aðrar vinsælar greiningaleiðir eru nöfn og tungumál leikritsins, afbyggð að sjálfsögðu; og svo skrýmsli og perversion og gróteska! Og ofbeldi...mmmm.

1990-2000. 409 verk. Nýsaga og síðnýlendustefna strike big. Allt um menninguna sem leikritið sprettur upp úr. Mikið um tengingar við aðra sautjándu aldar texta sem fjalla um samskipti kynþátta. Önnur áberandi greiningaraðferð er hvernig leikritið er nýtt í nútímanum, þ.e. hvernig verkið er sett upp á sviði, í bíómyndum, í ljóðum, skáldsögum, kennslustofunni og öðrum í greinum annarra fræðimanna.

2000- . 108 verk. Enn er of snemmt til að segja hvernig greiningaraðferðir þessa áratugar eiga eftir að taka á leikritinu. Umfjöllun um leikritið í tengslum við Íslam, þ.e. út frá trúarbragðafræði og kynþáttafræði, er áberandi. Enn er rifist um hvort Óþelló var svartur eður ei og hvort það skiptir máli. Og enn er talað um nútíma sviðsetningar á verkinu í mismunandi miðlum.

Taka verður fram að þessum tölum verður að taka með varúð og að ekki sé hægt að draga neinar ályktanir af þeim. Sambærilegar tölur fyrir Hamlet, t.d., eru 16-28-59-420-696-888-1083-385. Eins og hjá Óþelló, þá fjölgar greinum um Hamlet jafnt og þétt. Það eina sem við getum ef til vill staðhæft er að fræðigreinum fjölgar stöðugt, og á þessi fjölgun eflaust ræktur að rekja til sífellt sterkari þrýstings á fræðimenn til að birta greinar og bækur (og tengist það pólitík háskólastofnanna). Því fjölgar (lélegum? ófrumlegum? gagnslausum?) fræðiverkum stöðugt. Og einnig verðum við að taka tillit til gagnagrunnsins hvaðan ég fékk þessar tölur. MLA gagnagrunnurinn segir að hann "Provides over one million citations for items from journals and series published worldwide" og að hann "Indexes books, essay collections, working papers, proceedings, dissertations, and bibliographies." En gagnagrunnurinn leggur mesta áherslu á verk frá engilsaxneska málsvæðinu, og auðvitað tekst honum ekki að skrá allt sem kemur út. Það skekkir niðurstöðurnar.

Samt er gaman að grufla í tölum. Ef við kíkjum t.d. á Titus Andronicus, afskaplega blóðugt verk og eitt af því fyrsta sem Shakespeare skrifaði (verk sem fræðimenn hafa löngum talið vera afskaplega "lélegt"), þá sjáum við að milli níunda og tíunda áratugarins tvöfaldast greinarskrif um það. Á áttunda áratugnum birtust 65 greinar, á þeim níunda 67 greinar og á tíunda áratugnum 118 greinar. Hvað útskýrir þessa skyndilega fjölgun? Er það 1999 bíómyndin með Anthony Hopkins í aðalhlutverki (25 af þessum 118 greinum birtast 1999-2000). Eða er bíómyndin sjálf aðeins ein birtingarmynd af víðari, samfélagslegum áhuga á tíunda áratugnum um verkið sjálft, áhuga sem ef til vill mætti skilgreina sem áhuga á sviðsetningu ofbeldis og fjölskyldu-, samfélags-, stjórnmálatengsla.

Og hvað með King Lear? Fjöldi greina um verkið tvöfaldaðist á áttunda áratugnum, frá 210 í 421. Níundi áratugurinn var tiltölulega stöðugur með 508 greinar, en á tíunda áratugnum snarfækkaði þeim skyndilega, og 443 greinar eru skráðar. Af hverju misstu fræðimenn áhuga á Lé konungi? Varð of vandræðalegt að skrifa greinar um hann Lé, eftir að fræðimenn höfðu keppst um að nauðga verkinu á áttunda áratugnum með þunglamalegum sálfræði Freuds, Lacands, Kristevu og félaga? Var þessi fækkun bakslag gegn óslökkvandi áhuga níunda áratugarins á foucaultískum hugmyndum um geðveiki og samfélag? Eða var Lér konungur ekki nógu "sexy" fyrir áratuginn sem einkenndist af poppuðum uppsetningum á Shakespeare þar sem allir aðalleikararnir eru ungir og kynæsandi (yupp. það er erfitt að gera gamlan, hvítskeggjaðan, snargeggjaðan kóng að kyntrölli...).

En hvað um það. Eitt er víst, að nemendurnir í Shakespeare II hjá Alan Stewart virðast hafa einkar mikinn áhuga á Óþelló, áhuga sem þeir hafa ekki sýnt öðrum verkum hingað til, jafnvel ekki sjálfum Hamlet!. Og hver veit. Kannski eiga þeir eftir að skrifa skemmtilegar lokaritgerðir um leikritið. Þeir geta vísað í hálftíma umræðu okkar í tímanum í dag hvort að Óþelló hafi verið getulaus og hvort og þá hvenær Óþelló og Desdemóna hafi sofið saman (ah! undergrads!). Og ef þeir þjást að ritstíflu, þá geta þeir alltaf keypt ritgerð af Othelloessays.com.

14:50

Comments: Skrifa ummæli

Efst á síðu

This page is powered by Blogger.
Skyndikrækjur
Bríet.is
Þórey Mjallhvít

Kólumbíuháskóli
Enskudeildin í Kólumbíu
Húsið mitt

Aðrir vefleiðarar
Eagle & Weasel
Sveit(t)astelpan
Sparkle Motion
Fláráður
Rói
Brantley
Fellow librarian
Atallus
Ylfa
Þórey Mjallhvít
DíDee
Diary of a Feminist


Eldri greinar
<< í dag




2002
brynhildur