fimmtudagur, febrúar 12 Frank Muniz
Í morgun fór ég í jarðaför. Frank Muniz, nágranni minn, dó fyrir tæpri viku síðan og minningarathöfn var haldin í Corpus Christi kirkjunni á 121 stræti og Broadway. Ég hafði sjálf aðeins séð Frank einu sinni. Það var á þriðja degi hérna í Bandaríkjunum. Einhvern veginn hafði mér tekist að læsa mig úti á fyrsta deginum hérna uppi í Kólumbíuhverfi, og bankaði uppi á íbúðina hjá Muniz hjónunum til að hringja í húsvörðinn. Mrs. Muniz svaraði og bauð mér inn til að nota símann og þar sé ég Frank. Síðustu árin hafði hann verið rúmliggjandi, með lungnakrabbamein á háu stigi. Í hverri viku fékk hann senda súrefnistanka.
Ég sá Frank aldrei aftur, en hins vegar sá ég eiginkonu hans, Pat, reglulega. Hún er afar indæl kona á níræðisaldri sem talaði alltaf um mig sem "the little lady from Iceland" (fyndið, hún er alveg 150 sentimetrar og kallar mig litla!) við gesti sem komu í heimsókn til mín. Og síðan dó Frank, og öllum íbúum hússins var boðið í minningarathöfn.
Og ég fór. Líkami Krists kirkja er kaþólsk kirkja, og ég fylgdist afar áhugasöm með athöfninni, enda í fyrsta skipti sem ég kemst í tæri við kaþólska messu. Auðvitað hef ég séð kaþólskar messur í ótal bíómyndum, þar sem athöfnin er alltaf sérstaklega ábúðarfull og duló. Svo að athöfnin sjálf olli mér töluverðum vonbrigðum, svona í fyrsta skipti þegar ég sá hana ekki á risastórum kvikmyndaskjá. En þó... Á sama tíma varð athöfnin einhvern veginn merkilegri akkúrat vegna smæðarinnar og venjuleikans. Já, altarisdrengirnir voru á staðnum, einn afar hávaxinn og rétt kominn á gelgjuna, og leið greinilega ekki vel að vera í kjól. Sá hélt á risastórum krossi með blóðugum líkama Krists. Hinn lítill og þybbinn og enn nógu ungur til að finnast kjóllinn ekki vera vandræðalegur. Sá sveiflaði um reykelsinu alræmda. Fjögurra manna kór elti altarisdrengina og söng sálma. Líka í fermingarkjólum. Og síðan kom presturinn, gamall maður í hvítum kjól með biblíu í höndunum.
Ég fylgdist afar áhugasöm með öllu þessu. Miðjan á sviðinu (hmm, er það kallað svið eða kór, svæðið þar sem presturinn athafnar sig?) var afar lítið notuð í athöfninni. Presturinn hélt sig aðallega hægra megin, þar sem hann sat og stóð og söng og las upp úr biblíunni. Síðan fór hann einu sinni vinstra megin á sviðið til að lesa upp ræðu. Í hvert skipti sem hann gekk yfir mitt sviðið, hneigði hann sig fyrir altarismyndinni af Kristi í gylltum og rauðum kóngafötum og tveimur dýrðlingum (reyndar gerðu það allir sem gengu yfir miðkirkju). Á miðju sviði var autt borð, sem ekki var notað fyrr en í lok athafnarinnar þegar presturinn bauð upp á altarisgöngu, og tók til brauð og vín.
Sérstaklega áhugavert við athöfnina var notkun reykelsisins. Reykelsinu var sveiflað aftur og aftur, bæði af altarisdrengjunum og prestinum sjálfum. Presturinn gekk tvisvar í kringum auða miðborðið og reykelsaði það. Síðan var biblían reykelsuð við og við, og loksins brauðið og vínið. Ég sat á fimmta bekk, og í lok athafnarinnar var reykelsið virkilega farið í augun á mér.
Það sem skildi kannski þessa athöfn mest frá þeim fáum messum sem ég hef sótt á Íslandi er hvað mikið er staðið í þeirri kaþólsku. Ég stóð uppi hálfa athöfnina, og vorkenndi gamla fólkinu sem var í kirkjunni. Presturinn var líka afar fyndinn. Hann var sætur og vinalegur gamall kall, og þegar maðurinn byrjaði að tala í fyrsta skipti, lá við að ég skellti upp úr. Er hann ekki með þennan þykka bandaríska hreim. Þetta eru áhrif bíómyndanna! Einhvern veginn bjóst ég að hann hefði írskan hreim!
Sigh. En það er nú það. Nú sit ég og bíð eftir að fara að hitta Alan Stewart, prófessorinn minn gloriosus frá Bretlandi sem er hýr og innilega blautur. Ég er með útblásinn maga eftir matinn sem ég fékk í erfidrykkjunni, og er ekki alveg í stuði til að vagga niðrá skrifstofu... en hvað get ég gert. Sigh.
12:40