Dagbók
Myndir
Greinar
Krækjur
Senda póst

sunnudagur, janúar 11
 
Well! Ég held að ég skuldi öllum vinum mínum heima á Íslandi afsökun fyrir að hafa horfið skyndilega af sjónarsviðinu. Ég veit ekki hvað skeði. Einn daginn rann upp fyrir mér að ég hafði ekki kveikt á tölvunni minni í þrjár vikur, og þessi "dagbók" mín á netinu væri stöðnuð við þriðjudaginn 23. september. Og það var það. Næstu þrjá mánuði var þriðjudagurinn 23. september orðinn dánardagur netverunnar Brynhildar. Ekki það að ég hafi ekki fengið áhyggjufull bréf frá vinum og vandamönnum (bréf sem ég hef ekki enn svarað). Fríða elskan skrifaði bréf einhvern tímann í október. Tinna fékk systur sína Dísu til að hringja í mig í sama mánuði til að athuga hvort ég væri á lífi. Ása hefur bæði hringt og sent mér ýmis skammarbréf sem verða groddalegri eftir því sem tíminn líður. Vaka elskan gefst aldrei upp. Og ég hef ekki þorað að kíkja á athugasemdarkerfið á síðunni minni. Well. Ég skulda ykkur öllum afsökunarbeiðni. Og núna næstu dagana vind ég mér í það að senda öllum þeim sem hafa skrifað mér svarbréf. Sigh. I'm a bad person.

Í alvörunni. Ég veit ekki hvað gerðist. Einhvern veginn hætti ég bara að skrifa. Alveg stórfurðulegt. Og núna, laugardaginn 10. janúar 2004, stend ég frammi fyrir því að þrír mánuðir eru horfnir úr þessari tilvist minni í netheimum... sem vonandi á eftir að skapa miklar umræður og deilur eftir svo sem fimmtíu ár þegar allir sagnfræðingarnir og bókmenntafræðingarnir fara að skrifa ævisögur mínar...LOL. Ekki það að margt hefur ekki skeð þessa mánuði. Nokkrir punktar.
  • Ég fór á feministaráðstefnu í Maryland.
  • Ég fór í heimsókn til Völu vinkonu og fjölskyldu hennar norður í New York fylki og skemmti mér afar vel við að tala íslensku við það gáfaða og þenkjandi fólk.
  • Ég kynntist tveimur nýjum prófessorum í faginu mínu sem núna eru orðnir góðir vinir mínir.
  • Ég lærði latínu hjá Hot Toddie og er það vel.
  • Ég hætti öllum samskiptum við einn nafnlausan Belga sem ég kalla núna "pissant" í daglegu tali.
  • Ég átti í stormasömu sambandi við einn lítinn gyðingastrák...
  • Ég uppgötvaði, mér til mikillar skelfingar, að ég skil frönsku nokkurn veginn þegar ég les hana, og að þýska er einnig afar skiljanlegt mál.
  • Ég uppgötvaði nýtt kaffihús á horni 122. strætis og Amsterdam breiðgötunnar, þar sem ég heng núna reglulega í sófunum og les.
  • Ég leigði minn fyrsta bíl og keyrði til Pennsylvaniu þar sem ég og Helena grétum á jarðarför pabba Allisonar, hans Alans, sem var alveg stórmerkilegur og skemmtilegur kall, sem kallaði mig Burn og sagði í tíma og ótíma "Eeeshland" eftir að ég kenndi honum hvernig ætti að segja nafn landsins míns á íslensku.
  • Ég þrammaði um götur New York borgar með Björk, fyrrverandi sambýliskonu minni, sem kom til mín yfir jólin og skemmti mér vel að geta rölt um á nærfötunum í íbúðinni minni þar sem Hayley var á Spáni.
  • Ég lenti í miklum háskaleik þegar Pútín Rússlandsforseti heimsótti Kólumbíu, og háskólasvæðinu var lokað, og ég var á vitlausum stað á vitlausum tíma og uppskar grunsamlegt augnaráð frá tveimur svartklæddum mönnum sem höfðu hægri hendina hálft í hvoru undir jakkanum, tilbúnir í allt.
  • Ég mætti á minningarstund um Edward Said, hinn víðfræga og skapilla kennara sem kenndi mér síðasta vor, en gafst upp eftir fimm mínútur að horfa á kertaljósin, fór inn og laumaði mér inn í vínboð félagsvísindadeildarinnar.
Og svo framvegis. Nokkrir punktar. Man. Nú ætla ég að sanna fyrir sjálfri mér að ég geti haldið þessu við og skrifa strax annan pistil!

00:03

Comments: Skrifa ummæli

Efst á síðu

This page is powered by Blogger.
Skyndikrækjur
Bríet.is
Þórey Mjallhvít

Kólumbíuháskóli
Enskudeildin í Kólumbíu
Húsið mitt

Aðrir vefleiðarar
Eagle & Weasel
Sveit(t)astelpan
Sparkle Motion
Fláráður
Rói
Brantley
Fellow librarian
Atallus
Ylfa
Þórey Mjallhvít
DíDee
Diary of a Feminist


Eldri greinar
<< í dag




2002
brynhildur