Dagbók
Myndir
Greinar
Krækjur
Senda póst

sunnudagur, janúar 11
 
Vá, ég var að horfa á Kastljósið á heimasíðu RÚV í fyrsta skipti í afar langan tíma. Ástæðan fyrir þessum skyndilega áhuga mínum var auðvitað þessi stórmerkilega deila sem núna stendur yfir Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni og ævisögu hans um Halldór Laxness. Nú verð ég að segja að ég hef ekki lesið þessa ævisögu og hef lítinn sem engan áhuga á að lesa hana. Ég hef lesið þrjár bækur eftir Halldór á ævi minni. Í grunnskóla var ég neydd til að lesa Íslandsklukkuna. Menntaskólinn henti í mig Sjálfstæðu fólki, og Háskóli Íslands Vefaranum mikla frá Kasmír. Bækurnar voru svo sem ekki það leiðinlegar, en þær engu að síður alls ekki skemmtilegar. Og áður en ég fæ á mig milljón bréf sem segja mér af hverju ég hef rangt fyrir mér, þá vil ég bæta því við að ég hef afar litla þolinmæði fyrir nútímaskáldsögum (þ.e. skáldsögum frá 1820 til dagsins í dag) og er það afar sjaldgæft að ég taki mér eina í hönd. Þetta skapar auðvitað ákveðna spennu í mínu lífi, þar sem ég á að heita bókmenntafræðingur en hef afar lítið vit á skáldsagnaheimi 19. og 20. aldarinnar. En ég hugga mér við það að meirihluti íslenskra bókmenntafræðinga hafa einmitt áhuga á nútíma menningu, svo að það er alveg óþarft fyrir mig að reyna að blanda mér í þeirra umræðu með hálfum hug.

En nú er ég aðeins komin út fyrir efnið. Ég var að tala um Kastljós. Ég horfði á þáttinn sem var sýndur síðasta fimmtudag, þar sem Hannes svaraði ásökunum um ritstuld. Þetta var OFUR vandræðalegt. Ég gat hreinlega ekki horft á þetta. Eftir að hafa starað á skjáinn í nokkrar mínútur í gegnum fingur hægri handar, tók ég þá ákvörðun að fela spilarann og hlusta aðeins á hvað var sagt, án þess að horfa á samspil spyrjendanna tveggja og viðmælanda.

Nú hef ég aðeins vitneskju um þessa deilu í gegnum hin og þessi rit á vefnum. Ég las greinina hennar Helgu Kress á mbl.is og fannst sú gagnrýni eiga rétt á sér. Ef það er eitt sem ég hef lært síðasta eina og hálfa árið hér í Kólumbíu, er að fræðileg vinnubrögð eru það sem fræðimenn og/eða ævisöguskrifarar standa og falla með. Einnig var grein Guðna Elíssonar sem birtist í sömu Lesbók afar fyndin! Það eru þó, kannski, tvö atriði sem mér finnst athyglisverðust í þessari deilu.

Í fyrsta lagi: staða Hannesar sem ævisöguritari. Núna hafa staðið yfir miklar deilur um hvort að Hannes hafi rétt á að skrifa um Halldór og Hannes sjálfur byggir vörn sína á því að segja að gagnrýnendur bókarinnar hafi fyrir löngu ákveðið að hann sé óhæfur til skrifa þetta verk og hafi þar af leiðandi lesið bókina með því sjónarmiði að finna á henni vankanta. Þetta er athyglisvert orðalag: "að eiga rétt á einhverju". Hver hefur rétt á að skrifa um Halldór? Nú virðist mér sem að við stöndum frammi fyrir tveimur ósamræmanlegum Halldórum Laxnessum. Í fyrsta lagi höfum "Halldór", manninn fæddist árið 1902, ferðaðist hér og þar um heiminn þar til hann settist að í Mosfellsbæ ásamt konu sinni þar til hann dó árið 1998. Í öðru lagi höfum við "Laxness" sjálfan, nóbelskáldið mikla, þjóðareign okkar Íslendinga. Halldór og Laxness er tvö ólík fyrirbæri sem erfitt er að samræma.

Laxness er Skáldið okkar. Við lesum bækurnar hans, ljóðin og greinarnar, við lesum fræðirit og skáldsögur um hann, við tölum um hann í fjölskylduboðum og útvarpsþáttum, við deilum enn við vini okkar hvort að hann eða Þórbergur hafi verið betri rithöfundur, við segjum stolt við útlendinga að við, litla Ísland, höfum einn nóbelsverðlaunahafa. Þetta er Laxness. Við eigum hann og við getum sagt það sem við viljum um hann (hmmm... það er auðvitað, ef það sýnir Skáldinu tilhlýðilega virðingu...). Hannes hefur jafn mikinn rétt á að skrifa um Laxness og hver annar, og mér virðist sem að það eina sem hann þyrfti að hafa áhyggjur af við þær skriftir er að segja ekki of ljóta hluti um Skáldið, því að Laxness er ekki aðeins þjóðareign, heldur einnig órjúfanlegur hluti af íslensku þjóðarstolti.

En ekki er hægt að segja það sama um Halldór. Ef að ég man rétt, þá er tímabundið búið að loka bréfum Halldórs á Þjóðarbókhlöðunni, og aðeins tveimur fræðimönnum hefur verið gefinn aðgangur að þessum bréfum af fjölskyldu Halldórs. Nú man ég enn eftir því þegar amma mín gaf bréf og dagbækur Sigríðar langömmu á Skjalasafn Reykjavíkur árið 1997. Hún lét loka þessum bréfum í einhverja áratugi, nema fyrir afkomendum Sigríðar, og einstaklingum sem hefðu skriflegt leyfi frá okkur fjölskyldumeðlimum. Hennar ástæður fyrir þessari lokun voru þær að Sigríður langamma skrifaði um hina og þessa einstaklinga sem enn væru á lífi sem og börn þeirra, og að þessir einstaklingar myndu líklegast ekki kunna nógu vel við það að skrif sem fjölluðu um þá væri opin öllum þeim sem tæku lyftuna upp á fimmtu hæð á Tryggvagötu 15. Í þessu tilviki virðist sem að réttur Hannesar til að skrifa um Halldór hafi verið skertur af afkomendum Halldórs sem meinuðu honum (löglega) aðgang að gögnum um manninn.

Nú ætla ég ekki að deila um það hvort að rétt sé að skerða aðgang að gögnum um Halldór Laxness. Ég vil þó segja það að ég skil afkomendur Halldórs fullkomlega að hafa takmarkað aðgang að þessum skjölum, og finnst það ekki óréttlæti að aðeins tveimur fræðimönnum hafi verið gefinn aðgangur að þessu safni. Þvert í móti finnst mér það mikil heppni fyrir íslenskt fræðasamfélag að safninu hafi ekki verið algjörlega lokað næstu árin eða áratugina, og að við höfum að minnsta kosti þennan aðgang að þeim fjársjóði sem eflaust leynist meðal skjalanna. Eins og þessi vefleiðari minnir okkur á:
  • Frumheimildir sem Guðjón Friðriksson hefur aðgang að [við ritun ævisögu Hannesar Hafsteins] munu nokkru fátæklegri en þær sem Kristján Albertsson notaði. Það stafar af því að einkabréfum Hannesar, sem ekki voru í opinberum söfnum, var fargað nokkru eftir útgáfu ævisögunnar. Persónuleg viðkvæmni fyrir slíkum heimildum er gömul saga og ný.
Að minnsta kosti getum við fræðifólk andað rólega yfir því að bréf Halldórs eru í traustum höndum Þjóðarbókhlöðunnar og seint um síðir mun aðgangur að þeim verða frjáls.

En aftur að þessu tvíeykinu Halldóri og Laxnes(s?)i. Það er erfitt að skrifa um einstaklinga sem eru enn á lífi, eða nýlátnir, sérstaklega í svo litlu samfélagi sem Ísland er. Þá skarast þessi tvö hugtök saman, Halldór og Laxness, og skapa deilur milli fræðimanna og aðstandenda. Hins vegar getum við hlakkað til ársins 2100, þegar ég er alveg viss um að við öll sem hittum manninn erum löngu dauð, sem og "Halldór" sjálfur, og eftir stendur aðeins "Laxness" sem afkomendur okkar geta karpað um óhindrað, ad verbatum.

Hitt atriðið sem hefur vakið athygli mína í þessum deilum eru hvernig þau hafa átt sér stað. Eins og einn vefleiðarinn bendir á, þá er það ekki nógu fræðilegt hvernig staðið hefur verið á deilunni, sem hefur átt sér stað í dagblöðum landsins, ljósvökum og vefsíðum. Eins og hann segir:
  • Laxnessdeilan, þ.e. heimildanotkun Hannesar Hólmsteins, er dæmi um deilu sem hefði getað orðið mjög frjó og gagnleg ef hún hefði farið fram á síðum fræðirita, en ekki a síðum dagblaða og í "almennum" fjölmiðlum... Ástæðan er einfaldlega sú að mál sem þetta er mjög erfitt að reifa í beinni útsendingu með landsmenn alla standandi hjá, hrópandi "Slagur! Slagur!"
Nú hef ég afar lítið til að segja um þetta, nema að auðvitað hefur þessi vefleiðari rétt fyrir sér... upp að vissu marki. Þegar deila á sér stað á hröðum vettvangi fjölmiðlanna falla ýmis ógrunduð orð og lítið fer oft fyrir vandlega rannsökuðum rökum. En þó, ég hef ekki verið þáttakandi í íslensku fræðasamfélagi í þó nokkur ár en verð þó að segja að mig minnir að það sé ekki um sérstaklegan ríkan garð að gresja á fræðilegum vettvangi Íslendinga (hmmm. er nokkurn veginn viss um að hér sé alveg kolvitlaust farið með orðatiltækið). Ég viðurkenni fúslega, að eftir að "Tímarit Máls og menningar" breyttist í "TMM: tímarit um menningu" árið 2001 hef ég ekki haft orku í að blaða í gegnum það. Einnig vil ég meina að þessi opinbera deila á "ófræðilegum" vettvangi hafi verið óhjákvæmanleg, akkúrat vegna hugtakaruglingsins milli mannsins "Halldórs" og Skáldsins "Laxness" sem ég rakti áðan. Kannski ættum við líka að vera örlítið glöð yfir því að fræðibók sem þessi getur skapað svona opinberar deilur meðal alls almennings á landinu. Það er ekki alls staðar sem að rithöfundur og fræðibók um hann myndi vekja svona mikinn áhuga meðal Jóns á frystitogaranum og Gunnu á bæjarskrifstofunni. Við Íslendingar erum, þrátt fyrir allt, ennþá sagnaþjóðin (þótt að sögurnar sem við segjum fjalla núna allar um nágrannann!).

Samansafn nýlegra fréttagreina í Morgunblaðinu um deiluna
Vefur Morgunblaðsins um Halldór Laxness
Vefur Ríkisútvarpsins um Nóbelsverðlaunin 1955

01:21

Comments:
Your blog keeps getting better and better! Your older articles are not as good as newer ones you have a lot more creativity and originality now keep it up!
 
Skrifa ummæli

Efst á síðu

This page is powered by Blogger.
Skyndikrækjur
Bríet.is
Þórey Mjallhvít

Kólumbíuháskóli
Enskudeildin í Kólumbíu
Húsið mitt

Aðrir vefleiðarar
Eagle & Weasel
Sveit(t)astelpan
Sparkle Motion
Fláráður
Rói
Brantley
Fellow librarian
Atallus
Ylfa
Þórey Mjallhvít
DíDee
Diary of a Feminist


Eldri greinar
<< í dag




2002
brynhildur