Dagbók
Myndir
Greinar
Krækjur
Senda póst

laugardagur, janúar 24
Samkvæmisleikir  
Núna er klukkan svo mikið sem þrjú á laugardagseftirmiðdegi og ég er loksins að jafna mig eftir óvenju mikil samskipti við annað fólk síðustu daga. Það er erfitt að byrja aftur í skólanum, ekki vegna lestursins, heldur vegna þess að skyndilega þarf nemandinn að hafa samskipti við annað fólk daginn út og inn.

Þetta byrjaði allt á fimmtudaginn. Ég mætti snemma í skólann til að sitja í bekknum þar sem ég er aðstoðarkennari í grunnáfanga í Shakespeare. Ég sat hálfdofin í tímanum, þar sem hann er óeðlilega snemma (lesist: 10:30) og strax og kennslunni lauk var ég skyndilega undir árás milljón nemenda sem vildu vita allt frá því hvernig ætti að skrá sig í tímann, til hvort að þau ættu að sækja um að vera leikendur í nemendauppfærslu og The Tempest, og þá hvaða hlutverk þau ættu að reyna að nálgast. Ég svaraði út og suður (þó mjög greindarlega, ég flýti mér að bæta við hér!) og tókst að losa mig úr stóðinu þar sem ég var orðin sein á fyrirlestur innan háskólans.

Þessi fyrirlestur er reyndar afar merkilegur. Það er verið að ráða nýjan miðaldarfræðing í deildina, og tveir ungir fræðimenn koma til greina. Svo að þeir gangast núna undir eldraunina. Bæði tvö hafa þurft að hitta framhaldsnemendur við deildina og tala við þá um hvað þau vilja kenna og rannsaka næstu árin. Einnig þurfa þau að hitta hina kennarana og tala við þá um rannsóknarefni sín og sanna hvort þau séu skemmtileg viðbót við kennarakokkteilboðin. Og síðan, loksins, þurfa þau að halda fyrirlestra fyrir kennara og nemendur um efni að eigin vali, og sitja undir spurningum eftirá þar sem reynt er að skjóta fyrirlesturinn niður. Mjög brútal. Ég sótti fyrirlesturinn, og allan tíman gat ég ekki hætt að hugsa um að þetta væri eitthvað sem ég þarf að ganga í gegnum eftir fimm ár...).

En nóg um það. Eins og áður hefur komið fram eru fyrirlestrar ekkert annað en afsökun fyrir fræðafólk að hittast og tala eftir fyrirlesturinn. Ég gerði skyldu mína þegar fyrirlestrinum lauk og talaði við hina og þessa innan deildarinnar. Sérstaklega talaði ég lengi við elsku Jean Howard, leiðbeinanda minn við meistararitgerðina, sem hefur verið í rannsóknarleyfi í Huntington bókasafninu í Kaliforníu síðan í september. Ég þurfti að gefa nákvæma skýrslu um nákvæmlega hvað ég hef verið að gera undanfarna mánuði og hvað ég ætla að gera við þessi rannsóknarefni næstu mánuði. Eins og alþjóð veit, hef ég love/hate samband með þessari yndislegu en terrifying konu. Svo að það kom mér undarlega á óvart að í fyrsta skipti síðan ég hef hitt hana, hafði Jean virkilegan áhuga á því sem ég var að pæla í og mælti með því að ég héldi áfram með þær rannsóknir í stað þess að benda mér á milljón bækur sem þegar hafa verið skrifaðar um sama efni. Scccooooooore!

En allt þetta er auðvitað undanfari fyrir aðalstund fimmtudagsins, kvöldverðarboðið mikla. Andras, stórskemmtilegur gutti frá Ungverjalandi, og konan hans Agnes, sem er að ljúka doktorsgráðu í listasögu frá einhverjum skóla í París, voru búin að bjóða mér í kvöldmat. Og síðasta mánudag, þar sem við stóðum og drukkum rauðvín eftir fyrirlestur Peter Stallybrass, bættust Joanna, breskur framhaldsnemandi og hálfgerð gothgoddess, sem og hann Alan, breski prófessorinn, í hópinn.

Brilljant! Við sátum saman langt fram eftir kvöldi og drukkum ógrynni mikið af miðlungsgóðu rauðvíni og afar lélegu freyðivíni, töluðum um Eurovision og bandarískt raunveruleikasjónvarp, bandaríska pólitík og hvað við, Evrópubúarnir, fannst um að búa í þessu virkilega furðulega landi sem Bandaríkin er. Ég sagði Alan frá minni kenningu um Shakespeare, þ.e. nákvæmlega um samband Shakespeare við Star Trek, og talaði um póstmódernískt eðli klíngonsku útgáfu á heildarsafni Shakespeares, og hann hristi höfuðið títt og ótt á móti, enda klassískur Shakespearefræðingur. Ég sé ekki fram á að ég megi halda fyrirlestur um Shakespeare the Klingon í náinni framtíð... En absolutely brilljant. Ég var farin að sjá tvöfalt þegar kvöldinu lauk klukkan fjögur um morguninn, og föstudagurinn fór í það að reyna að jafna mig, þegar ég lá eins og skata í sófanum, með þrjár fjarstýringar í hönd, að horfa á lélegar bíómyndir á WE, the Women's Entertainment Network. Eins gott að ég var búin að jafna mig um kvöldið þegar við tók annað kokkteilboð, í þetta skipti með samnemendum mínum sem ég sé afar sjaldan.

Exciting, n'est-ce pas? En nóg um það. Núna er ég fyllt sektarkennd, enda er sektarkenndin náttúrulegt ástand háskólanemans, og er á leiðinni á bókasafnið. Lifi lesturinn. Á mánudag þarf ég að sitja latínupróf í öllu því sem ég er búin að gleyma frá síðustu önn, sem og að sitja í tíma í kennslufræði þar sem ég þarf að þykjast hafa lesið allt heimskulega lestrarefnið með brennandi áhuga og gleði.

15:20

Comments: Skrifa ummæli

Efst á síðu

This page is powered by Blogger.
Skyndikrækjur
Bríet.is
Þórey Mjallhvít

Kólumbíuháskóli
Enskudeildin í Kólumbíu
Húsið mitt

Aðrir vefleiðarar
Eagle & Weasel
Sveit(t)astelpan
Sparkle Motion
Fláráður
Rói
Brantley
Fellow librarian
Atallus
Ylfa
Þórey Mjallhvít
DíDee
Diary of a Feminist


Eldri greinar
<< í dag




2002
brynhildur