Dagbók
Myndir
Greinar
Krækjur
Senda póst

föstudagur, janúar 30
Öfgavandræðalegt!  
Æ, þetta á að kenna mér að vera ekki að athuga tölvupóstinn minn klukkan hálftvö að nóttu til. Ég er áskrifandi að fjórum mismunandi tölvupóstlistum, og á hverjum einasta degi þarf ég að fara yfir pósthólfið mitt og eyða svo sem fimmtíu bréfum til þess að geta lesið "alvöru" bréfin mín. En núna í dag fékk ég bréf frá einum listanum (þessum æðislega, æðislega að því leyti að hann sendir aðeins tvær tilkynningar á viku, í mesta lagi. Bréfið var hálf furðulegt, og fjallaði eitthvað um beiðni um að staðfesta að þetta væri rétt póstfang til að vera áskrifandi að listanum. Svo að ég ýti auðvitað strax á "reply" og skrifa stórum stöfum í titilkassa: CONFIRMED og endurtek svo sömu hástafaskilaboðin í meginmáli. Ýti á "send" og ber hausnum í mjólkurglasið mitt fimm sekúndum seinna þegar ég uppgötva skyndilega að þetta hlaut auðvitað að vera einhver tæknilega ósinnaður einstaklingur sem hefur verið að leita að upplýsingum um að vera áskrifandi, en í stað þess að senda bréf til stjórnandans, sendir óvart bréf til alls listans. Svo núna býð ég í von og óvon eftir því hvort að ég sé skyndilega orðin ein af þessum tæknilega ósinnuðu einstaklingum, og hvort að CONFIRMED bréfið mitt alræmda birtist brátt í nokkur þúsund pósthólfum hér á austurströnd Bandaríkjanna.

Annars er ekkert að frétta héðan úr höfuðborg heimsins. Það merkilegasta er, ef til vill, að ég var að taka þá stórákvörðun að morgundeginum skyldi vera eytt í að taka til í skrifstofu og svefnherbergi mínu. Sem hefur auðvitað orðið þess valdandi að ég meika ekki alveg að fara að sofa, því að, eins og við vitum öll, því fyrr sem við förum að sofa, því fyrr kemur morgundagurinn...

Gerði auðvitað ekkert í dag nema að mæta í skólann og hanga heima hjá Helenu að horfa á Buffy myndgeisladiska (á frönsku með enskum undirtitlum, svo að ég gæti sagt sjálfri mér að ég væri í raun að læra...). Tja, ég mætti reyndar á einn fyrirlestur um kvöldið, um þýðingu sextándu aldar ljóðskáldsins Skeltons á fimmtándu aldar latneskri þýðingu ítalskt ljóðskálds á grískum frumtexta sagnfræðings frá því á fyrstu öld f.Kr. Mjög athyglisvert. Og auðvitað mjög pómó...

Já, og fyrir ykkur sem hafa ef til vill verið að velta því fyrir ykkur að ég lifi sældarlífi, og geri mest lítið fyrir muchos peninga, þá vil ég segja ykkur litla dæmisögu til að sanna fyrir okkur hasarinn og háskaleikina sem fylgja þessu námi, og hvaða hættur stafa að bókmenntafræðinemanum. Ramóna, þýsk vinkona mín sem býr hér við hliðina á mér, gat ekki mætt í tímann okkar í dag. Hún hringdi í mig snemma um morguninn og tilkynnti mér að hún gæti ekki staðið á fætur: eitthvað hefði skeð, eitthvað væri að, eitthvað væri bogið við hálsinn hennar. Ég sagði henni að fara að sofa og sat ein í gegnum umræður átján ára grislinga um Hamlet (átján ára fólk er fífl). Um kvöldið, eftir Buffyveisluna mína, þegar ég gekk í rólegheitunum með kaffibollann á leiðina á fyrirlesturinn, sé ég síðan Ramónu út á götu. Og ég skal sko segja ykkur: Ég hef aldrei séð annan eins hálsríg fyrr. Manneskjan gat ekki lyft hálsinum, sem var beygður niður á hægri öxl hennar og haggaðist ekki. Jedúddamía. Tölum aðeins um hálsríg, að læra yfir sig, hokin yfir litlu fartölvunum okkar.

Það sama gerðist nú reyndar við mig núna síðasta haust, einhvern tímann á þessum þremur mánuðum þegar ég hætti að skrifa. Ég vaknaði bara upp einn daginn og gat ekki hreyft á mér bakið. Á fjórða degi, þegar ég reyndi að standa upp úr bíósæti og gat ekki þá varð ég virkilega hrædd og fór beint til læknis. "Læknir, læknir, hvað er að? Er ég komin með brjósklos? Þarf ég að fara í uppskurð? Hve langan tíma tekur það? Ég þarf að fara á bókasafnið, hef engan tíma, ó nei, ó vei, hví ég?" Well, læknirinn tilkynnti mér að ég væri bara týpískur Kólumbíunemi. Kemur í ljós að við nemendur í Kólumbíu erum allir haldnir fullkomnunaráráttu, og að þessi fullkomnunarárátta veldur miklum stresseinkennum. Því eru bakverkir og aðrir stressáverkar óvenju algengir hér í skólanum. Læknirinn klykkti út með því að segja mér að hafa ávallt í huga þessi orð "the pain is all in the brain" og setti mig síðan niður fyrir framan sjónvarpið þar sem ég horfði á hálftíma heimildarmynd um hvernig bakverkir væru allir ímyndaðir sjúkdómar, og hvernig við gætum læknað sjálf okkur með því að hugsa jákvætt og vera í góðu skapi. Og I'll be damned. Nema að það svínvirkaði. Þegar ég gekk frá lækninum með lyfseðilinn að níðsterku vöðvaslakandi pillunum, þá fann ég strax fyrir óvenjum léttileika í hryggjarsúlunni, ég sveiflaði mjöðmunum til fram og til baka til að halda uppi á nýtilkomnum hreifanleika mínum og sveif inn í apótekið. Og þá um nóttina, þegar ég tók fyrstu vöðvaslakandi pilluna... Ójá, tölum aðeins um að svífa í lausu lofti á lyfrænu skýi...

02:02

Comments: Skrifa ummæli

Efst á síðu

This page is powered by Blogger.
Skyndikrækjur
Bríet.is
Þórey Mjallhvít

Kólumbíuháskóli
Enskudeildin í Kólumbíu
Húsið mitt

Aðrir vefleiðarar
Eagle & Weasel
Sveit(t)astelpan
Sparkle Motion
Fláráður
Rói
Brantley
Fellow librarian
Atallus
Ylfa
Þórey Mjallhvít
DíDee
Diary of a Feminist


Eldri greinar
<< í dag




2002
brynhildur