sunnudagur, júní 22
Ættarmót ættarmót ættarmót. Það er alltaf mikið stuð á ættarmótum... Fór á ættarmót um helgina. Stútfullt félagsheimili einhversstaðar í sveit sem ég man ekki alveg hvað heitir, í dal sem er fylltur af þokumóðu og með ekkert símasamband nema gengið sé upp fimmhundruð metra þverhnípi og stiginn hinn velþekkti gemsadans sem gengur út á að halda símanum frá sér með útréttar hendur og hökta um þangað til að merki Símans birtist á skjánum.
Annars var þetta ættarmót ansi hefðbundið. Fólk byrjar á því að faðma alla og kyssa, þrátt fyrir að það þekkist ekki neitt og muni ekki alveg nafnið hvort á öðru. Síðan er tekið við að éta og setið í gegnum tvo tíma af skemmtun þar sem krakkakvikindi ættarinnar láta ljós sitt skína meðan foreldrarnir úúúaa og aaaaa og aðrir taka mynd af sætleikanum (LOL. cuteness. léleg þýðing, eða hvað!). Og þegar skemmtidagskránni lýkur, þá er tekið við að drekka og dansa við ABBA og íslenska slagara, og fólkið sem þekktist ekki fyrir fimm tímum er núna orðið bestu vinir (enda bundnir órjúfanlegum íslenskum blóðböndum), þar til klukkan slær þrjú og allir slagast fram í tjald um miðja íslenska sumarnótt.
Ég fór á ættarmótið með eitt takmark, og eitt takmark aðeins: að sofa. Ég vildi sofa og sofa og sofa. Og já, kannski liggja í sólbaði í sveitinni og lesa eina af þessum átta bókum sem ég passaði að pakka niður í töskuna mína. En þar sem ég er elsta frænkan í föngulegum hóp barnabarna (ég 24 ára, allir hinir 6-13 ára) þá fékk ég ekki mikið tækifæri til að liggja í leti. Í hvert skipti sem ég hélt að ég hefði fundið stað þar sem enginn gæti fundið mig, var ég leituð uppi og þurfti að láta ljós mitt skína; að breiða út visku mína sem eldri (kúl?) frænkan. Þetta gekk svo langt að á laugardagseftirmiðdegið fyllti ég brúsa af kaffi, dró upp tvær bækur og gekk af stað. Eftir tuttugu mínútna göngu var ég komin úr augsýn á félagsheimilinu og fimm mínútum seinna fann ég lítinn lund þar sem íslenskur skógur (30 sentimetra há tré) beið eftir mér. Ég leit flóttalega í kringum mig, kastaði mér niður á fjóra fætur, og skreið eins og ég ætti lífið að leysa í gegnum þennan frumskóg þar til ég kom að litlum lundi þar sem ég gat falist frá veginum svo lengi sem ég settist ekki upp. Ah, frelsið, kaffið, bókin.