fimmtudagur, apríl 10
Jæja, nú vildi ég bara láta ykkur vita að það þýðir ekkert að koma hingað næstu tvær vikurnar. Ég sit nú sveitt alla daga við ritgerðasmíðir. Meistararitgerðin á að koma inn eftir rétt rúmlega viku og "litlu" ritgerðirnar fjórar eftir þrjár vikur. Það er erfitt líf að vera nemi. En sem parting gift to my devoted readers, fylgja hér á eftir tveir pistlar um tvo fræðimenn sem töluðu um stríðið fyrir stuttu hérna í New York, vinstrimanninn Eric Hobsbawm og hægrimanninn Niall Ferguson.
Og getið þið hvað! Ég held að það sé búið að banna aðgang Bandaríkjamanna að Al-Jazeera. Ég er búin að reyna að komast inn á þessa arabísku fréttastöð síðan stríðið hófst fyrir tæplega mánuði síðan, og aldrei hefur mér verið hleypt inn. Það koma alltaf upp þessi furðuleg skilaboð: villa villa, vefsíðan getur ekki hlaðist inn í tölvuna þína. Tölum aðeins um ritskoðun....
Eins og flestir vita væntanlega, þá réðust Bandaríkjamenn inn í Baghdad í gær og fréttamyndum af styttu og torgi var dælt inn á vestrænar fréttastöðvar. Reyndar kom smá snuðra í reikninginn þegar vitleysingur frá Brooklyn setti bandaríska fánann yfir styttuna af honum Hussein en heryfirvöldum tókst fljótlega að fjarlægja fánann og henda þeim íraska í staðinn yfir axlir (fyrrum) forseta Íraks. Þessi hermaður, by the by, er orðinn að smáhetju hérna á New York svæðinu og nýjujórvískar fréttastöðvar kepptust við að tala við fjölskyldu hans og vini í gærkvöldi. Hann er, eins og við má búast hér í þessu fjölmenningarsvæði New York borgar, af asískum ættum og er annarar kynslóðar Bandaríkjamaður. En þetta er útúrdúr. Ég vildi tala um ritskoðun.
Mikil gleði hefur ríkt hér á bandarískum fréttastöðvum í gær og sömu myndskeiðin frá torginu hafa verið sýnd aftur og aftur og aftur, og til þess að bæta upp fyrir fæð mynda, þá er ræða Donalds Rumsfelds um sigur Bandaríkjamanna klippt inn milli. Íhaldssamir fréttamenn fara nú yfirum í umfjöllun sinni á stríðinu. Sá svæsnasti var einn Joe Scarborough sem er fyrrum alþingismaður fyrir Repúblikanaflokkinn og starfar nú sem fréttamaður á MSNBC. Maðurinn hló allan tímann í fréttastundinni sinni og fékk til sín öfgahægrisinnaðan útvarpsmann til að tala um nýjustu þróunina í Baghdad. Það sem stóð upp úr þeim fréttatíma voru setningar eins og "Dante talks about how the hottest place in hell is saved for those that remain neutral during times of war. We all know where our guys are there. GOD BLESS GEORGE BUSH. He is truly a great man." Og "The leftists are always wrong. They were wrong about the cold war and they were wrong about the bilingual education for immigrants and they were wrong about this war. And not only are they always wrong, they never say they're sorry. They are more concerned with being politically correct than MORALLY RIGHT, morally right like we are." Og til að krydda aðeins upp á fréttaflutninginn, þá voru birtar úrklippur úr viðtölum við vinstrisinna og við Hollywoodleikara sem höfðu komið fram opinberlega til að mótmæla stríðinu og fyrir neðan viðtölin var textinn "Eating their words". Og eftir hvert viðtalið, voru birtar myndirnar af styttunni að detta og af einhverju gamalmenni sem kyssti myndina af George Bush.