miðvikudagur, apríl 30
Gisp. Fólk er ekki að fatta húmorinn minn! Ætli ég verði ekki ekki að halda kjafti og vera sæt... (LOL. Vísa í athugasemdir sem bárust í tveimur af færslunum hér fyrir neðan.)
Annars er ég, Binna, apparently komin út úr skápnum sem anarkóhúmorfeministi (eðalorð, verð að segja, bókmenntafræðimenntun mín kemur greinilega að miklu gagni. Já og líka að latínan virkar stundum ansi vel, ég meina, hvernig væri þetta á íslensku, "stjórnleysingjaskopkvenfrelsissinni"?), og það sem meira spennandi er, þá er ég komin í fyrstu bloggritdeiluna mína.
Ég hef fylgst með miklum áhuga með ritdeilum sem fara fram í hinum íslensku bloggheimum síðan ég hóf sjálf að halda úti vefleiðara. Fyrir þá lesendur sem ekki þekkja til í bloggheimum, þá fara bloggdeilur fram svona:
Bloggari A skrifar eitthvað á netið sitt, og vísar oft í umræðu sem farið hefur fram í fjölmiðlum eða á öðrum opinberum vettvangi.
Bloggari B les Blog A og er ósammála. Bloggari B skrifar andsvar á bloggið sitt og skilur oft eftir athugasemd hjá Bloggara A þar sem hann bendir á heimasíðu sína og gefur í kjarnyrtu og miskurteisislegu máli til kynna að hann sé ósammála skoðunum A.
Bloggari A svarar bæði á athugasemdarkerfi sínu þessum aðdróttunum og skrifar einnig nýjan pistil þar sem hann ítrekar skoðanir sínar, og lýsir nákvæmlega afhverju mómæli B séu alveg fáránleg. Einnig fer bloggari A við þetta tækifæri á bloggsíðu B og mótmælir í athugasemdarkerfinu þar.
Lesandi E, F, og G halda ekki úti bloggsíðu en hafa, þrátt fyrir þennan óskiljanlega skort, skoðanir á málefnum, og leggja sitt af mörkum í athugasemdakerfi beggja aðila.
Bloggari C tekur eftir ritdeilunni og vill fá sinn hluta af hitunni og skrifar pistil um málefnið á sínu bloggi og segir þar nákvæmlega hvað sé að röksemdafærslu A og B, og afhverju sín skoðun sé sú rétta.
Bloggari D ákveður að þessi deila sé orðin það spennó að hann tekur saman umræðurnar eins og þær hafa farið fram hingað til, með tilvísun í einstaka færslur A, B og C, ásamt vel út völdum athugasemdum sem komið hafa fram í athugasemdakerfum þeirra. Við þetta tækifæri setur D oft fram sína skoðun á málinu.
Þessar ritdeildur geta haldið áfram í eins langan tíma og þáttakendurnir hafa áhuga, getu og nennu. Það sem mestu máli skiptir er að enginn haggist frá upphaflegu skoðunum sínum.
Aðalkúdosið er þegar ritdeilan vekur athygli utan bloggheima og birtist í prent- og/eða ljósvakafjölmiðlum landsins.
Verður að taka fram að þessi listi er ekki ófrávíkjanlegur. Þessi einstöku atriði geta birst í hvaða röð sem er, og fjöldi þáttakenda er ótakmarkaður.
Ég er sem sagt loksins orðin að fullgildum meðlimi bloggheimsins. Þáttaka í bloggdeilu er eldskírn hvers einasta bloggara, þegar hann sannar fyrir jafningjum sínum að hann eigi heima í bloggheimi. Það besta við bloggdeilurnar er auðvitað að athygli er vakin á bloggi bloggarans, og lesendahópur hans eykst til muna. Til þess að viðhalda baráttureglum bloggdeilurnar kræki ég nú í þær tvær síður þar sem bloggdeila mín hefur farið fram. Erna og Einar Mar.
Og til að gera ykkur auðveldara fyrir að fylgjast með þessum baráttuvelli bloggara, þá mun ég nú setja okkur þrímenningana upp í bloggdeiluskemað sem ég útlistaði hér að ofan. Erna er í hlutverki bloggara A. Ég er í hlutverki bloggara B. Í þessu tilviki var enginn bloggari C, og Einar Már hoppaði strax yfir í blogghlutverk D. Nú lýsi ég eftir lesendum E, F og G til þess að virkilegur hiti getur færst í leikinn!
02:14