þriðjudagur, september 23
Svo virðist vera að ég sé að kynnast nýju og nýju fólki núna á þessu ári. Núna á föstudaginn var mér boðið í trúlofunarveislu til einnar Patriciu, sem stúderar endurreisnarbókmenntir hérna í Kólumbíu. Ég mætti galvösk á staðinn og komst að mér til mikillar skelfingar að ég hafði ekki lesið boðskortið mitt nógu vandlega. Ég held að ég hafi verið eina manneskjan á svæðinu sem ekki kom með gífurlega flókna og flotta heimabakaða tertu í tilefni dagsins.
Svo að auðvitað tek ég mér bara ódýrt þýskt freyðivín í hönd, yppi öxlum og drekk til heiðurs tilvonandi brúðhjónanna. Eftir tvö glös af þessum gáruga drykk er mér farið að líða ansi furðulega. Ég skipti yfir í rauðvínið, en allt kemur fyrir ekki, ég þarf að yfirgefa svæðið klukkan tíu þar sem mér leið ekkert sérstaklega vel. Munum öll að forðast þýska freyðivínið!
Reyndar komst ég að því daginn eftir að ákvörðun mín var sú akkúrat rétta. Becky og Jo, nýjar stelpur í prógramminu, höfði ekki mína forsjálni og voru í trúlofunarveislunni þangað til á miðnætti. Skömmu eftir að ég yfirgaf veisluna, þá byrjaði allt fólkið (sem enginn þekkti þar sem þetta voru allt vinir parsins frá því í "college") að skiptast á opinberum sögum um líf og daga parsins síðustu árin. Kvöldið endaði á því að ljóð sem parið hafði samið síðustu tvö árin voru lesin upp, sem og boðorðið leikið fyrir allan þann skara sem ekki hafði verið viðstaddur þegar það var upphaflega borið fram.
Ég dæsti af þakklæti þegar ég komst af þessu framhaldi. Becky sem sagði mér frá þessu daginn eftir, glotti andstyggilega þegar hún endurtók í hinum ýtarlegustu smáatriðum öll þau vemmilegheit sem þetta "out-of-state" pakk, vinahópur parsins, hafði tekið upp á. Becky er töff, bara svo að allir íslenskir lesendur þessa vefleiðara viti. Hún er 149.86 sentimetrar á hæð og hefur þróað létt-kaldhæðnislegan húmor (hvort að hann tengist eitthvað hæðinni, vil ég ekki tjá mig um, enda er ég enginn poppsálfræðingur...). Það sem einnig er afskaplega spennandi við hana er að hún er ef til vill ennþá betri gestgjafi heldur en Allison, Allison sem á þúsund blaðsíðna doðrant frá Emily Post sem kennir mannasiði og veisluhald. Það hlakkar í okkur Helenu, þar sem við eigum líklega eftir að sjá blóðuga baráttu tveggja gestgjafa áður en þessari önn líkur.
17:19