laugardagur, september 13
Það eru svo sannarlega hasar og háskaleikir í litlu íbúðinni minni hér á the Upper West Side. Ég sat í mesta sakleysi í gærkveldi og horfði á mína fyrstu vídjómynd síðan ég kom til Bandaríkjanna. Þegar tíu mínútur voru á eftir myndinni, tökum við eftir stærsta skorkvikindi sem ég hef á ævinni séð skríða eftir gólfmottunni undir sófann.
Ég er auðvitað sjóuð í ýmsum skorkvikindum, eftir að hafa ferðast um hina myrku Asíu, og eftir að hafa búið í hinni myrku New Jersey sem unglingur. Kakkalakkar eru landlægir í NJ, og ég tel mig hafa ansi góð viðbrögð við að kremja þessi sentimetra löng brúnu kvikindi með fálmarana og kræklóttu fæturnar... EN. Þessi viðbjóður sem ég sá utanundir mér í gær var ÞRÍR sentimetrar. ÞRÍR sentimetrar. Og fór hratt yfir.
Ég hoppaði upp á sófann, og eftir mikla snúninga, tekst að hoppa úr sófanum, í gegnum stofuhurðina og stíg á hreina gólfið á ganginum. Ég flýti mér inn í skrifstofuna og set á mig skó. Ég öskra á Hayley sem kemur með tissjú og einbeittan svip. Við förum að ýta til húsgögnunum, fram og til baka. Sjáum við og við til pöddunnar þar sem hún skutlast til, en erum aldrei nógu snöggar að kremja hana.
Sögulok. Ég tek ónotaða brúsann minn af skordýraeitri og spreyja alla stofuna, fram og til baka, fram og til baka. Ég reyni að klára að horfa á myndina, en augun á mér svíða undir sætum ilmi eitursins, og ég gefst upp. Ég fer inn á skrifstofuna mína og reyni að glamra á gítarinn minn, og er ansi svekkt yfir því að gítarhæfileikar mínir virðast hafa farið aftur á bak þar sem ég hef ekki snert hljóðfærið í viku. Ég vil núna verða góður gítarleikari. En það er erfitt, þar sem ég kann ekki einu sinni að stilla kvikindið.
Sigh. Og í dag er hreinsidagurinn mikli. Er búin að skófla öllu út úr svefnherberginu mínu og sé nú gólfið í fyrsta skipti síðan ég kom hingað. Ferðatöskurnar mínar eru núna tómar og komnar upp í skáp, og bókahillurnar mínar nýju og góðu sem ég keypti í IKEA eru núna troðfullar. Sem útaf fyrir sig er áhyggjuefni, þar sem ég hef ekki enn keypt skólabækurnar mínar. Bókahillurnar eru fullar, ég er ekki enn búin að kaupa bækur að ráði fyrir haustið, og það er enn bókastafli af miðlungsbókum í svefnherberginu mínu, bókastafli sem ég er hægt og hægt að gera mér grein fyrir að muni vera kyrr og ósnertur næstu fimm árin.
Lífið sem fræðimanneskja er svo sannarlega erfitt. En ég er að læra latínu. Whooplee!
18:24