fimmtudagur, júlí 3
Húplaheyhey! Eftir að hafa starfað á Hagstofu Íslands með skóla síðan ég var sextán ára, fékk ég loksins að prófa að vera yfirmanneskja á þeirri mikilvægu ríkisstofnun. Fríða vinkona, sem eftir eins árs starf hjá Hagstofunni var ráðin sem yfirmanneskja, þurfti að yfirgefa staðinn snemma, og var ég, Brynhildur Heiðardóttir Ómarsdóttir, fengin til að stjórna vaktinni og hafði þar mannaforráð yfir heilum fjórum starfsmönnum.
Eins og alþjóð veit, þá starfa ég við úthringingar í vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar, og svona seint í vikunni, þá erum við yfirleitt búin að ná í flesta þá sem hægt er að ná í. Því lenti ég í því að mínir fjórir starfsmenn voru alltaf að hringja í sama fólkið og eftir panikerað símtal við Fríðu, sendi ég þrjá þeirra heim. Eftir var ég, the head cheese, sem nú hafði aðeins yfir einum starfsmanni að ráða. Og þessi starfsmaður gerði uppreisn þegar stundarfjórðungur var eftir af vinnutímanum og fór einnig heim.
Og þá fór út um sjóferð þá. Mín tveggja tíma reynsla af stjórnunarstöðu hefur verið afar lærdómsrík. Ég er ekki frá því að ég er meiri manneskja fyrir vikið, og ber betur skilning til uppbyggingu vinnustaðasamfélaga og verklags o.s.frv. LOL. (Bara svo þú vitir elsku Fríða, að þegar þessi orð eru skrifuð, þá er ég búin að skrá mig út, og er því ekki að misnota aðstöðu mína sem yfirmanneskja hjá íslenska ríkinu.) LOL.
16:07