miðvikudagur, júní 18
Rigning rigning og aftur rigning. Sautjándi júní var afar blautur. Ekki það að það skipti mig neinu máli. Ég var að vinna til miðnættis þann dag.
Sem starfsmaður hins hússins var ég sett í að sjá um tjaldið á Ingólfstorgi þar sem listamennirnir fengu sér kaffi áður en þeir fóru á svið og sungu fyrir fjöldan. Ljúft starf að öllu leyti þar sem ég sat í sex tíma, drakk kaffi, borðaði kleinur, og las eina raðmorðingjasögu frá Bandaríkjunum. Gæslan var afar lítil, nema þegar Páll Óskar kom inn í tjaldið og ég þurfti að reka tíu ára krakkagrislingana sem héngu í kringum tjaldið, bönkuðu í það og öskruðu: "Palli. We love you."
Hápunktur dagsins: þegar bílstjóri á vegum Reykjavíkurborgar var afar dónalegur við mig og aðra stelpu og talaði um hve stelpur væri lélegar að bera og sagði okkur að við yrðum bara að skila það að við gætum ekki borið jafn mikið og karlar, jafnvel þótt við værum Rauðsokkur. Síðan tók hann strákinn í hópnum, fór með hann í bíltúr og skildi okkur "stelpurnar" eftir til að bera kassanna sem hann var búinn að eyða svo miklum tíma í að tala um hve aumar við værum og gætum ekki lyft þeim.
Annar hápunktur dagsins: að vera inni í tjaldinu þegar Páll Óskar skipti yfir í sviðsfötin. Palli er æði. Palli. We love you!
09:48