miðvikudagur, júní 18
Það er enn allt á floti hérna sem er vont fyrir okkur lúðana sem höfum ekki efni á einkabíl og reiðum okkur á fjóra jafnfljóta og strætó. En það gaf mér þó tækifæri til að vera Florence Nightingale fyrir 21. öldina. Á leiðinni úr jafningjafræðslunni yfir í vinnuna mína í Hagstofunni rambaði ég á orm sem var að synda í polli í Nóatúni. Blíðum höndum fór ég um greyið þegar ég greip um búkinn á honum og henti honum í næsta beð. Reyndar sá ég síðan tvo aðra orma á leiðinni, sem skriðu makindarlega um gangstéttirnar, en var þá of löt til að hjálpa þeim. Einn af hverjum þremur. Ég kalla þetta nú bara góðan árangur.
Raðmorðingjasaga dagsins: Blindsighted eftir Karin Slaughter. Auglýsingin um bókina tilkynnir stolt: "Don't read this alone. Don't read this after dark. But do read it." Ég verð samt að segja að hún er ekki alveg nógu blóðug fyrir minn smekk. Aðeins tvær árásir hingað til (bls. 215) og af þeim lifði annar af. Þó má hún Slaughter eiga það að árásirnar eru ansi hugmyndaríkar. Sérstaklega sú fyrri. Sú var svo viðbjóðsleg að ég hef aldrei séð annað eins notað áður í spennubókmenntum, og verð að viðurkenna að mér hafði ekki einu sinni dottið í hug að þetta væri hægt. Það virkar greinilega að heita Slátrun þegar kona skrifar spennusögu!
17:12