Dagbók
Myndir
Greinar
Krækjur
Senda póst

miðvikudagur, júní 25
 
Almáttugur. Ég fæ ekki að sleppa við flóknu samskiptaleikina sem Bandaríkjamenn virðast þrífast á, jafnvel þótt ég sé flúin yfir Atlantshafið, í örugga heimahöfn Íslands. Ég er núna búin að fá þó nokkur bréf frá Helenu og Allison, þar sem koma fram misvísandi túlkanir á vandræðunum sem áttu sér stað rétt áður en ég flutti aftur heim, og ég þarf að sýna mikla diplómatíska hæfileika, skrifa þeim sitt hvort bréfið þar sem ég styð þeirra málstað, en þó á þann hátt að ef hinn aðilinn les bréfið, þá sjái hann ekkert í því til þess að móðgast yfir, heldur í raun sjái stuðningsyfirlýsingu við sig í bréfinu. Bréfin enda því ansi klisjukennt og opin og hægt er að túlka þau á mismunandi vegu.

OG, síðan var ég að fá bréf frá Hayley herbergisfélaga. Við erum semsagt báðar tvær að leigja út íbúðarhlutann okkar. Ég hafði talað við leigandann minn, Blake einn tuttugu ára sætur strákur, og sagt honum frá íbúðinni og hvernig á að haga sér í henni og fara með húsgögnin, sérstaklega húsgögnin sem eru í eigu Hayley þar sem henni er mjög annt um þau, og bla bla bla. Blake hefur væntanlega sagt Mickey, leigjanda Hayley, sem hefur líklegast sagt Hayley. Nú var ég sem sagt að fá bréf frá Hayley sem spyr mig af hverju ég sagði Blake að hún væri paranoid um húsgögnin sín, og sagði mér að ég ætti að tala um við hana ef mér líður illa að búa með henni blablablabla. Svo ég þurfti að skrifa henni bréf þar sem ég sagði að mér líkaði mjög vel við hana, að hún væri yndisleg manneskja, og æðislegt að búa með henni og að ég minntist þess aldrei að hafa baktalað hana o.s.frv. o.s.frv. Og nú er ég með magaverk og bíð eftir svari og ég hata svona vandræði. Gisp. Slúðurberar. Auðvitað hefði ég átt að gæta orðanna minna frekar, en ég hélt í alvörunni að ég væri að vera fyndin þegar ég sagði Blake að hún væri paranoid, og meinti nú aldrei illt með því. Einnig hefði ég átt að minnast þess að Blake greyið er aðeins tvítugur og þeir tala nú ansi mikið oft.

En nóg um þetta rant. Ég verð bara fúl að tala um þetta. Í gærdag og í dag er ég að skrifa fyrirlestur sem ég held fyrir þátttakendur í Snorraverkefninu á morgun. Snorraverkefnið er verkefnið þar sem ungir vestur-íslenskir krakkar koma til Íslands og kynnast uppruna sínum. Ég á að halda fyrirlestur, ásamt Ásu vinkonu, þar sem ég segi frá kjörum íslenskra kvenna þegar þær komu til Vesturheims, og nefna nokkrar merkar íslenskar landnámskonur. Ég hef flutt þennan fyrirlestur áður (tvisvar) en er núna að endurbæta hann töluvert. Ég er búin að klippa út allt sem ég hafði skrifað um sögu feminisma á Íslandi, og er að lengja hlutann sem leggur áherslu á Vesturheiminn. Það eru síðan auðvitað engar heimildir um þetta efni. Ég er að pæla mig í gegnum það helsta sem skrifað hefur verið um flutningana til Nýja Íslands, bæði á íslensku og á ensku, og aldrei er talað um konurnar og hvað þær gerðu.

Týpísk lýsing er einhvernveginn svona: "Jón bóndi flutti út ásamt konu sinni Gunnu. Jón bóndi starfaði alla tíð sem bóndi og fiskimaður. Þau áttu tvö börn." Svo við fáum skilmerkilegar og greinargóðar lýsingar um hvernig íslenskir karlmenn eyddu deginum, hvað þeir eyddu löngum tíma í fiskerí, bóndastörf, mat, svefn o.s.frv., en konurnar, þær eru ósýnilegar. Þrátt fyrir að þær hafi mjög oft stjórnað búskapnum algjörlega þar sem fiskeríið dró vestur-íslensku karlmennina burt frá heimilinu marga mánuði á hverju ári. Ég klára að fara í gegnum heimildirnar í kvöld og skrifa niður fyrirlesturinn. Aðalniðurstöðurnar eru: það er til fátt skrifað um vestur-íslenskar konur.

Fyrir þá sem hafa áhuga, er hægt að finna gamla fyrirlesturinn á veffanginu: http://www.briet.tk

Einnig er afar merkilegt fyrir mig að ég er ekki að skrifa niður heimildirnar í fyrirlestrinum. Þar sem hann er aðeins lesinn upp og á aldrei eftir að vera yfirfarinn af sagnfræðingi, bókmenntafræðingi eða fræðingi af einhverju tagi, þá punkta ég bara niður hvaða bækur ég notaði ef ég vil breyta síðar, en merki ekki niður blaðsíðutöl, heimildamenn, dagsetningar, o.s.frv. Eftir ársnám í framhaldsnámi í háskóla, er það mjög óþægileg tilfinning að vera gera þetta svona ófræðilega og ófaglega. But what the hey. You only live once, and it's fun to live on the edge. Eða eitthvað í þá áttina.


11:04

Comments: Skrifa ummæli

Efst á síðu

This page is powered by Blogger.
Skyndikrækjur
Bríet.is
Þórey Mjallhvít

Kólumbíuháskóli
Enskudeildin í Kólumbíu
Húsið mitt

Aðrir vefleiðarar
Eagle & Weasel
Sveit(t)astelpan
Sparkle Motion
Fláráður
Rói
Brantley
Fellow librarian
Atallus
Ylfa
Þórey Mjallhvít
DíDee
Diary of a Feminist


Eldri greinar
<< í dag




2002
brynhildur