mánudagur, maí 26
Á sjöttu hæð byggingar minnar býr kona ein að nafni Connie. Connie er stórmerkileg kona. Hún er fimmtug, en lítur út fyrir að vera þrjátíu ára gömul. Hún var í músíkheiminum þegar hún var á fertugsaldrinum og ferðaðist um heiminn í tíu ár á tónleikaflandri með listamönnum eins og The Who og David Bowie. Hún á hús í Zansibar. Hún vinnur sem almannatengslafulltrúi í Harlem. Hún er með fjöldan allan af sögum af samböndum hennar við karlmenn tíu, tuttugu árum yngri en hún sjálf. Og hún er vinkona mín.
Núna um helgina bauð Connie mér í göngutúr í Harlem. Ég verð að viðurkenna það að í það tæpa ár sem ég hef búið hér á 122. stræti, þá hef ég aldrei farið ofar en 125. stræti, gatan sem skilur að Morningside Heights og Harlem. En Connie dró mig í þetta hverfi sem leigubílstjórar vildu ekki fara til fyrir áratug síðan. Og ég fékk mikið menningarsjokk. Ég hef ekki séð jafn fallegt og jafn rólegt hverfi og Harlem síðan ég kom hingað til New York. Vissulega tala allar túristabækurnar um Greenwich og Soho og TriBeCa og þangað flykkjast New York búar þegar þeir vilja skemmta sér í borginni, en þau hverfi eru einhvern veginn öll svo eins, öll svo vel þekkt að þau eru ekki spennandi lengur. En Harlem, it's the undiscovered country. Húsin þar eru gömul einbýlishús, sem öll er verið að gera upp. Umferð er ekki mikil, og hér og þar eru almenningsgarðar þar sem fólk getir setið og sólað sig í friði frá mannþrönginni í Central Park.
Og Connie er auðvitað algjört æði. Hún gekk um hverfið með mér og sýndi mér það helsta og fór með mér til að heimsækja hina og þessa hönnuði í hverfinu. Í fyrsta skipti skildi ég hvað öll tískutímaritin eru að tala um þegar þau minnast á "The Harlem Renaissance". Í hverfinu eru að flytjast inn ungir hönnuðir sem hafa búðir hér og þar í heiminum, en bækistöðvar í Harlem. Connie kynnti mér fyrir Veronicu Jones, Eto Evans og Montgomery. Og sem punkturinn yfir i-ið hitti ég Dr. Garries, litla miðaldra konu með sléttustu húð í heimi, sem er kannski engin furða, því að hún er fegurðarskurðlæknir... Og í lok dagsins fórum við á nýjan veitingastað sem verið var að opna í hverfinu og Connie keypti fyrir mig besta grillmat sem ég hef smakkað í langan tíma, suðurríkja/karabískan mat.
Harlem er samt engin paradís. Hverfið er blanda af þessu hugsjónafólki sem flyst þangað, gerir upp húsin, opnar nýja og skemmtilega staði, en því fylgir auðvitað að húsaleigan í hverfinu hækkar, verð í búðum hækkar, og gömlu íbúar hverfisins hrökklast á brott. Hverfið er stórfurðuleg blanda af hinu nýja og spennandi og fallega, og af niðurníddum byggingum, vínbúðum þar sem allt er selt í gegnum skothelt gler, skuggalegum mörkuðum á götuhornum og offeitu fólki í sjúskuðum fötum.
Ég varð vitni að dæmi um þennan árekstur hins nýja og ríka og hins gamla og fátæka. Montgomery er hönnuður með búð í Central Harlem þar sem hún selur boli á 150 dali og kjóla á 600. Á hverjum degi koma einhverjir íbúar hverfisins í heimsókn, ekki til að kaupa, heldur til að sjá herlegheitin. Og samkvæmt Montgomery, taka margir þeirra því sem persónulegri móðgun að fötin skuli vera svona dýr. Ég var vitni að því þennan dag, þegar tvær konur gengu inn í búðina til að skoða fötin. Þær spurðu hve einn kjóll kostaði og voru ekki nógu hressar með verðið (595). Montgomery vildi ekki tala við þær og afsakaði sig og fór að lagfæra tónlistina, en þó ekki fyrr en hún var búin að taka pilsið sem önnur kvennanna hélt kæruleysislega á (345). Þær gengu út í fússi og voru fyrir utan búðina í þó nokkrar mínútur að tala saman mjög hressilega og horfðu við og við í gegnum glerið á búðinni og störðu á okkur með merkingarþrungnum augnsvip. Montgomery hefur gefist upp á að hafa búðina opna fyrir almenning. Í næstu viku ætlar hún að setja inn bjöllu á búðina, og viðskiptavinir þurfa því að hringja bjöllunni ef þeir vilja komast inn.
Ég vil taka það fram að þótt að mér finnist þessi saga vera afar einkennandi fyrir þennan árekstur tveggja menningarheim (ekki lengur svartra og hvítra, heldur ríkra og fátækra), þá er hún ef til vill ekki besta dæmisagan. Því að Montgomery sjálf er stórfurðuleg. Hún er opinská svört kona á miðjum aldri, orkumikil og sjálfsörugg, skemmtileg og oft á tíðum hrokafull. Hún talar mikið um hvernig hverfið vill ekki að hún sé þarna, og hvernig íbúar hverfisins trufla hana í vinnunni og eftir vinnu. En ég er ekki viss. Voru það íbúarnir, sem skrimta á 1000 dollurum á mánuði, sem vildu ekki að Montgomery kæmi í hverfið og stríddi þeim með því að sýna þeim kjóla sem kosta jafn mikið og þeir þéna á tveimur vikum? Eða er það Montgomery sjálf, hrokafull og upptekin af fötunum sínum, sem vill ekki að óhreinn og ómenntaður almenningur kemur inn í búðina og káfar á verkum hennar?
11:45