Dagbók
Myndir
Greinar
Krækjur
Senda póst

fimmtudagur, maí 1
 
Oh well, svo fór út um sjóferð þá! Ég er alltof löt (eða kannski of sjálfhverf. Nei, segjum annars alltof bissí í skólanum!) til að standa í hugmyndafræðilegri umræðu á netinu. Vil þó að lokum benda á tvo pistla sem mér finnst vera það merkilegasta sem komið hefur upp í þessu uberskandali um Gyðudraumana og um hlutverk feminista í samfélaginu í dag. En tölum aðeins meira um sjálfhverfu mína. Ég er auðvitað nemi í bókmenntafræði, og þegar ég lít á pistil minn hér fyrir neðan, þá fer hrollur um mig, þar sem ég sé að ég set tilveru bloggverja á netinu upp í formalískt skema, og fylgi þar með afargömlum og löngu úreldum bókmenntafræðikenningum. Látum mig reyna aftur.

Voila! Bloggtilvist á póstmódernískan máta (með anga af sálgreiningu til þess að krydda upp á lesturinn):

Tilvist bloggsins kjarnast og grundvallast í afar einföldum verknaði: einstaklingur sest við tölvu, skrifar líf sitt, og birtir á veraldarvefnum. Í þessari aðgerð felst bæði upphaf og (til)vera nýs fyrirbæris sem við höfum ekki enn (og munum aldrei) tekist að skilgreina til fullnustu. Þrátt fyrir að aldrei verði hægt að ná h/böndum utanum þessa veru, getum við nálgast hana með því að smætta greininguna niður í frumeindirnar, að taka aðeins fyrir einn anga af heildinni og líta á þróun bloggsyrðingarinnar í einstökum bloggeindum. Beinum nú sjónarhorninu aftur að einstaklingnum sem situr við tölvuna að skrifa líf sitt.

Í upphafi er þetta verkefni hans tiltölulega einfalt. Einstaklingurinn lítur á bloggfyrirbærið sem einfalda dagbók, þar sem einstök atriði í lífi einstaklingsins eru skrifuð niður og birt á vefnum. Ástæðan sem liggur á bakvið þessa verknaðs er bæði margflókin og óyrt. Einstaklingurinn vill muna eftir atburðunum sem hann greinir frá; hann vill deila reynslu sinni fyrir vinum og vandamönnum; hann vill gjarnan fá að sjá nafn sitt ljósprentað á skjánum; hann vill að aðrir einstaklingar á netinu geti uppgötvað hve einstakur og sérstakur hann er. Ef til vill getum við kjarnað þessa löngun einstaklingsins í einni yrðingu: Hann vill sanna tilvist sína sem einstaklingur og notar bloggfyrirbærið við þessa tilraun sína.

En bloggfyrirbærið grefur undan þessu verkefni einstaklingsins. Bloggskrif einstaklingsins einskorðast í upphafi við daglegt líf og reynslu einstaklingsins, en snemma byrjar að glitta fyrir uppgötvun einstaklingsins að þetta fyrirbæri sé ef til vill eitthvað sem hann getur ekki stjórnað. Einstaklingurinn fer að velta fyrir sér hvað hann geti nú sagt á þessum opinbera vettvangi. Hvað má hann segja og hvað má hann ekki segja, og hvaða áhrif munu skrif hans hafa á annað fólk í samfélaginu? Við þessar hugrenningar er fyrsta skrefið tekið í áttina að/til verunnar sem við köllum blogg.

Einstaklingurinn fer að taka þátt í samfélags-vefnum. Hann les bloggsíður annarra netverja, og það kemur að því að hann fer að vísa í þessar síður á eigin síðu, skrifa athugasemdir í athugasemdarkerfi annara síðna og taka þátt í þeirri umræðu sem fer fram á netinu. Þessi aðgerð felur í sér rof milli einstaklingsins sem stendur á bakvið síðuna og þeirrar netverjatilvistar sem sköpuð hefur verið af blogginu á síðunni. Einstaklingurinn hefur verið til/færður yfir á netið, netvera er orðin til, og algjör aðskilnaður er milli net/verunnar(verjans) og einstaklingsins.

Nýtt líf hefur verið ofið.

(Tíhí. Þetta er ofurfyndið. Ég er alveg sérstaklega upp með mér með merkilegri sviga-, bandstrika- og skástrikanotkun minni. Endilega, ef þið viljið að ég greini bloggfyrirbærið út frá öðrum kenningum, látið mig vita!)

15:07

Comments: Skrifa ummæli

Efst á síðu

This page is powered by Blogger.
Skyndikrækjur
Bríet.is
Þórey Mjallhvít

Kólumbíuháskóli
Enskudeildin í Kólumbíu
Húsið mitt

Aðrir vefleiðarar
Eagle & Weasel
Sveit(t)astelpan
Sparkle Motion
Fláráður
Rói
Brantley
Fellow librarian
Atallus
Ylfa
Þórey Mjallhvít
DíDee
Diary of a Feminist


Eldri greinar
<< í dag




2002
brynhildur