Dagbók
Myndir
Greinar
Krækjur
Senda póst

miðvikudagur, maí 14
 
Það er erfitt líf í stórborginni þessa dagana. Þessir dagar snúast um búrókratísk málefni. Gærdagurinn var fyrsti dagurinn minn í baráttunni við kerfið.

Dagurinn hófst í ISSO, International Scholars and Students' Office. Þar sýndi ég vegabréfið mitt og fékk stimplað I-9 form sem gefur mér atvinnuleyfi hérna í Bandaríkjunum. Síðan hélt ég beinustu leið niðrá enskuskrifstofuna, en uppgötvaði miðja leið að ég ætti kannski að tala aðeins betur við ISSO og fá hjá þeim formið sem gefur mér kleyft til að fá endurgreiddan allan skattinn minn (þar sem Ísland og BNA hafa skattasamning sem þýðir að ég borga engan skatt í fimm ár). ISSO gellurnar voru þó ekki á því að þetta form, 8233 væri fyrir mig og ég hélt aftur af stað, vonsvikin til enskudeildarinnar.

Þegar þar var komið fór ég beinustu leið á skrifstofu Davids Damrosch, forstöðumanns framhaldsskólanámsins. Auglýstar skrifstofustundir hans eru á þriðjudögum milli eitt og fjögur, en kemur í ljós að þar sem skóla er lokið, hafa skrifstofustundir dottið niður. Svo ég hékk á skrifstofunni þar til Joy Hayton, skrifstofustjóri deildarinnar mætti á staðinn. Þar fór hún í gegnum þau átta form sem ég var búin að komast yfir með því að prenta þau af netinu frá heimasíðu háskólans og skattstofunnar, og henti út helmingnum þar sem þau áttu ekki við mig þar sem ég er erlendur skiptinemi (kemur til dæmis í ljós að ég bý ekki í NY, nonresident, thank you very much). Og I-9 formið mitt, sem var eina rétta eyðublaðið mitt, var gagnslaust þar sem landvistarleyfi mitt rennur út í ágúst, og því hef ég ekki leyfi til að vinna næsta haust. Joy var afar jákvæð og gaf mér 8233 sem ISSO gellurnar höfðu neitað mér um og sendi mig burt, og ég renn yfir bleðilinn á ganginum og sé að ég get ekki heldur fyllt út þetta blessaða eyðublað þar sem ég er ekki með landvistarleyfi á næsta ári.

Og þá er Binna heppin. Nappa ég ekki hann Damrosch á ganginum og heng í honum þar til hann sest við tölvuna og pikkar inn bréf þar sem hann segir að ég sé í "good standing" í prógramminu, að ég hafi peninga fyrir næsta ár, og að ég sé skráð í deildina. Og hann fer yfir landvistareyðublöðin mín og skrifar undir á réttum stað.

Og hvað svo? Well, á morgun fer ég aftur á ISSO, læt þau skrifa undir landvistareyðublöðin mín, svo ég geti sent þau af stað í Fulbright, beðið eftir svari þaðan, og þegar þau berast og ég fæ nýtt leyfi, fer ég aftur á ISSO, fæ nýtt I-9 og get þá fyllt út 8233 og upplýsingaeyðublöðin sem ég þarf að skila inn til að geta fengið þessa 17,044 dollara sem ég á að fá á næsta ári.

Og næstu dagarnir: segja upp símanum, segja upp internetinu, segja upp sjónvarpinu, leita að leigjanda að íbúðinni minni (þó ég sé þó komin á þá skoðun að ég ætti bara að borga leiguna og leyfa engum að vera í skrifstofunni minni með öllum bókunum mínum), leita að flugi heim til Íslands (já, ég er ekki komin með flug heim...), biðja póstinn um áframsendingu á reikningunum mínum, o.s.frv. o.s.frv.

Og það hjálpaði ekki að eftir alla búrókratísku hringavitleysuna í dag, þá fór ég á fyrirlestur með þremur kennurum í deildinni þar sem talað var um framtíð doktorsnámsins, slaks ástands á atvinnumarkaðnum í dag, krísu akademíunnar, og hvernig framhaldsnemarnir í bókmenntafræði eru í vondum málum, og eiga eftir að enda uppi sem atvinnulausir aumingjar í ræsinu. Gisp. Og vorið er komið. Og muggan. Mengunin hér á götum New York eykst með hverjum deginum sem líður og eftir sex daga á ég eftir að standa í Harry Potter kufli, með kassalaga pottlok á hausnum og taka við gráðu sem segir að ég sé með meistaragráðu í bókmenntafræði, og hello, ég get sagt ykkur það, að eftir eitt ár í bókmenntafræði hérna hef ég komist að því að ég veit ekki neitt, og það er hypókrísa af hæstu gráðu að gefa mér meistararéttindi fyrir það eitt að komast að því að ég veit ekki neitt.

Sigh. Og því er engin furða að ég er andvaka í nótt. Grey Binna.

04:24

Comments: Skrifa ummæli

Efst á síðu

This page is powered by Blogger.
Skyndikrækjur
Bríet.is
Þórey Mjallhvít

Kólumbíuháskóli
Enskudeildin í Kólumbíu
Húsið mitt

Aðrir vefleiðarar
Eagle & Weasel
Sveit(t)astelpan
Sparkle Motion
Fláráður
Rói
Brantley
Fellow librarian
Atallus
Ylfa
Þórey Mjallhvít
DíDee
Diary of a Feminist


Eldri greinar
<< í dag




2002
brynhildur