Dagbók
Myndir
Greinar
Krækjur
Senda póst

fimmtudagur, apríl 10
 
Starspotting -- Niall Ferguson

Eftir fyrirlesturinn með Eric Hobsbawm vorum við Edward svo pólitísk mótiveruð að við ákváðum að fara að hlusta á andstæðu Eiríks, einn Niall Ferguson, skoskan sagnfræðing sem nýlega er byrjaður að kenna í New York University. Niall Ferguson er ungur maður, fjallmyndalegur, rétt rúmlega þrítugur, og er líklegur til að verða stórstjarna þegar um líður. Árið 1995 byrjaði hann að gefa út bækur, og hefur ekki hætt síðan. Næstum því á hverju ári birtist löng bók eftir hann, vel skrifuð og vel rannsökuð og með afar “villandi” boðskap (að mínu mati þar sem ég er hardcore vinstrimanneskja). Oxford háskóli skapaði prófessorstól fyrir Njál svo að hann myndi ekki yfirgefa skólann og borgaði honum muchos peninga, en allt kom fyrir ekki, NYU bauð í hann muchos muchos peninga og hann er nú komin í okkar fair city til að breiða boðskapinn.

Nýlegt viðtal sem tekið var við manninn segir til dæmis:
  • Oxford professor Niall Ferguson has attracted considerable attention, and not merely for his ambitious histories of the Rothschild banking dynasty, the First World War and, now, the history of money and power over the past three hundred years in his new book, The Cash Nexus. In the British press, Ferguson has made the front page for having done all of this at thirty-six, after a career as a popular “right-wing” journalist, and while looking far too good and being far too well-dressed. A recent Guardian profile begins: “I think I may hate Niall Ferguson.” A reputedly huge advance from Penguin for his next three books, as well as a documentary t.v. series in the offing, have only turned up the volume on the kind of spiteful coverage for which the British press is famous. In person, Ferguson is certainly as well-dressed as advertised, and handsome, in a British way: In the movie, he’d be played by Colin Firth.
Njáll hefur mjög merkilegar skoðanir. Hann lítur á stríð sem náttúrulegt ástand samfélagsins og reyndar sem drifkraft samfélagsins. Alltaf hafa verið til stórveldi í heiminum sem hafa ráðist inn í og ráðið öðrum ríkjum. Það er bara gott. Ástæðan fyrir því að heimurinn er í svo slæmu standi í dag er að Bandaríkjamenn hafa ekki axlað ábyrgð sína sem stórveldi sem skyldi og eru ekki nógu aktív í að ráða heiminum. Ofureinföld útskýring á kenningum hans auðvitað, but hey, ég er ekki sagnfræðingur, aðeins bókmenntafræðingur. Hér er að finna MJÖG merkilega grein um skoðanir hans. og hér er ekki eins merkileg grein.

Njáll er semsagt komin hingað til Bandaríkjanna og New York Public Library bauð upp á fyrirlestur hans sem bar heitið “The Rise and Demise of the British Empire and Lessons for the US”. Fyrirlesturinn heitir næstum því sama nafni og nýja bókin hans sem heitir í bandarískri útgáfunni “The Rise and Demise of the British Empire and the Lessons for World Order”. Í bresku útgáfunni heitir bókin auðvitað “How Britain Made the Modern World”...

Hlökkuðum við Edward auðvitað mikið til að sjá þennan gutta. Við hoppum því í neðanjarðarlestina á miðvikudaginn, förum niður á 42. stræti og göngum inn í troðfullan salinn. Nú verð ég að segja ykkur að fyrirlestrar hjá NYPL er kannski ekki þeir akademísku. Þeir eru haldnir fyrir “vini bókasafnsins”, það er að segja afdönkuð gamalmenni sem hafa alltof mikla peninga sem þeir gefa bókasafninu. Salurinn var því vel útbúinn með heyrnartækjum sem voru í boði fyrir gestina. Þegar Njáll er kynntur störum við Edward á manninn. Hann er ekki eins hávaxinn og ég hafði búist við (eftir að hafa séð fjallmyndarlegu myndina af manninum), en hann var gífurlega vel klæddur og meðan hann hlustaði á lofræðuna um sjálfan sig bar hann höfuðið hátt og horfði (stærilætislega) upp í loftið. Hmmm.

Loksins stígur hann upp á svið og fyrirlesturinn hefst. Það verður að segjast að maðurinn er afskaplega sjarmerandi og kann að koma fyrir sig orði. Hann hefur fyrirlesturinn á að segja afar flókinn brandara um Bush, sem hann kallar George II, og hvernig hann þurfi að gera ansi mikið af sér fyrir Bandaríkjamenn til að óska eftir George III (þið vitið, Mad King George sem missti nýlendurnar úr konunglegum höndum sér 1776, einnig betur þekktur sem slímulegi aðstoðarmaðurinn í Yes, Prime Minister...). Njáll talar með veikum skoskum hreim, og segir reyndar seinna í fyrirlestrinum: “I am, in case you haven’t figured it out, Scots; so don’t call me English!”

Fyrirlesturinn byrjar á því að greina frá sögu breska heimsveldisins í Írak, hvernig Bretar réðust inn í Írak 1914 og réðu landinu í fjörutíu ár. Eftir þessa söguyfirferð fer Njáll yfir í nútímastjórnmál. Það er tvennt sem honum finnst rangt við stríðið í dag. Í fyrsta lagi þá er það allt of stuttur tími sem bandarísk yfirvöld ætla stríðinu. Bandaríkjamenn virðast halda að þeir geti “bjargað” Írak á sex mánuðum, eitthvað sem Bretum tókst ekki þrátt fyrir fjörutíu ára veru í landinu. Í öðru lagi eru þau (ach, who am I kidding, ÞEIR) sem er ætlað til að stjórna Írak þegar stríðinu líkur rangir fyrir starfið. Bandaríska ríkistjórnin virðist aðeins nýta sér “non-intellectuals” sem vita ekkert um miðausturlöndin.

Síðan skiptir Njáll aðeins um gír, hættir að tala um stríðið í Írak og fer að skýra aðeins pólitískar kenningar sínar, sem hann hefur haldið fram í öllum bókum sínum. Við lifum semsagt á tímum efnahagsalheimsvæðingar á sama tíma og stjórnmálauppbrot á sér stað (“a time of economic globalization but political fragmentation”). Útflutningur Vesturlanda til fátækustu ríkja heimsins eru aðeins 5 prósent, meðan í byrjun tuttugustu aldarinnar var útflutningur til sömu ríkja 25 prósent. Af hverju? Nú, vegna þess að þá voru þessi lönd undir stjórn Breta, og auðvitað vilja fyrirtæki aðeins fjárfesta í “the sure deal”. Meðan Vesturlönd stjórnuðu löndunum gátu fjárfestar treyst því að þeir peningar sem þeir sendu inn í löndin skiluðu af sér arði. (Gisp. Nú andvarpa ég. Þetta meikar auðvitað brutal sense, realpolitik baby...). Sögulega séð, segir Njáll, þá var heimsveldi Breta mjög gagnlegt. Hagkerfi landanna sem Bretland réði yfir óx gífurlega, miklu meira vöxtur þeirra er í dag. Hann klykkir út með því að halda því fram að fyrrum nýlendur Breta hafa það miklu verr í dag heldur en í tíma bresku nýlendustjórnarinnar.

Eftirfarandi fimm atriði gerðu breska heimsveldið að því stórveldi sem það var.
  • 1. frjáls viðskipti og gagnkvæm verslun milli móðurlandsins og nýlendanna.
  • 2. flutningur vinnuafls frá móðurlandinu til nýlendanna (það er hvítir Bretar að vinna í Indlandi)
  • 3. starfsemi einkasamtaka í nýlendunum við að “siðmennta” þjóðirnar (á nítjándu öldinni voru það kristniboðarnir, í dag myndu það vera hjálparsamtök)
  • 4. breski herinn
  • 5. óspillanlegir opinberir starfsmenn sem gegna leiðtogastöðum í nýlendunum...
Þegar allt kemur til alls var það ekki barátta nýlendanan og aukin þjóðernishyggja sem varð breska heimsveldinu að falli. Nei, Njáll segir að það er í raun Bandaríkjunum að kenna. Bandaríkjamenn neituðu að hjálpa Bretum fjárhagslega eftir seinni heimsstyrjöldina við að halda nýlendum sínum, og heimsveldið riðaði allt of fljótt til kolls, og hefur skapað mikil vandræði í þessum fyrrum nýlendum.

Njáll skiptir síðan aftur yfir í að tala um Bandaríkinn. Hann segir að það skiptir ekki máli hvaða rósamál við tölum, Bandaríkin eru samt sem áður heimsveldi, eða “empire”. Honum finnst afar fyndið hvernig Bandaríkjamenn reyna að afneita því og finna ný heiti fyrir sjálfa sig, svo sem “global hegemon”. Reyndar leggur hann nýtt heiti til í fyrirlestrinum. Hann segist hafa tekið eftir því að í hvert skipti sem við á Vesturlöndum ráðumst inn í nýtt ríki segjum við það vera vegna þess að við þurfum að koma hjálparstarfi til íbúa þjóðanna sem um ræðir. Því er nýja rósamálið fyrir heimsveldi/empire: “an organization for the delivery of humanitarian aid”. Mér fannst þetta afaaaar fyndið. En hann fer síðan út í alvarlegri sálma og segir að það sé skiljanlegt að Bandaríkjamenn kunni illa við að kalla sig heimsveldi, þar sem þau urðu til við uppreisn gegn breska heimsveldinu.

Bandaríkin hafa í dag möguleika á að vera miklu stærra heimsveldi en Bretland var nokkurn tímann. Bandaríkin hafa í dag 20 prósent af heimsframleiðslu; Bretland hafði aldrei meira en 10 prósent. En Bandaríkin eiga aldrei eftir að verða slíkt heimsveldi, að mati Njáls. Af hverju? Tvær ástæður. Í fyrsta lagi er það uppbygging samfélagsins. Það sýgur til sín fólk en flytur það ekki út. Það sýgur til sín peninga en flytur það ekki út. Í öðrulagi er það menningin. Bandaríkjamenn trúa ekki á heimsveldishyggju. Stjórnarskrá þeirra er skrifuð með andheimsveldisákafa ("anti-imperialistic fervor").

Fyrirlestrinum líkur þar og spurningarnar hefjast. Edward og ég ákváðum strax að við munum aldrei aftur fara á fyrirlestur hjá borgarbókasafninu. Við erum orðin svo snobbuð, að við krefjumst akademískrar umræðu í lok fyrirlesturs, ekki heilalausra spurninga skammsýnna Bandaríkjamanna (þó ég sagði nú við Edward að við gætum þó sagst vera að halda sambandi við sauðsvartan almenninginn, til að skilja hvað drífur plebbana áfram þessa dagana, you know, keeping in touch with the regular joe... LOL). En í fullri alvöru. Ég ætla bara að endursegja fyrstu spurninguna, sem var dæmigerð fyrir spurningatímann.

“Kæri doktor Ferguson. Þú talar um hvernig Bandaríkin ættu að læra af reynslu Breta og verða að betra heimsveldi. Þó er mikill munur á Bandaríkjunum í dag og Bretlandi fyrir 100 árum, munur sem þú talar ekki um. Í fyrsta lagi, þá erum við stærra land landfræðilega séð. Í öðru lagi þá höfum við ekki stéttskipt samfélag (slitrótt lófaklapp kemur við þessa staðhæfingu, héðan og þaðan úr salnum) þar sem við sendum yngri syni og óskilgetna syni yfirstéttarinnar til útlanda þar sem þeir geta ekki fengið starf við hæfi heimanvið. Í þriðja lagi þá þurftu Bretar að berjast við fíla í Indlandi og Zuluhermenn með spjót í Afríku, meðan við þurfum að berjast við WMD (hver er þýðingin nú til dags á Íslandi á þessu? Weapons of mass distruction...) sem geta hitt borgir okkar. Í síðasta lagi þá þurfum við að berjast við trúarofstækismenn en ekki Bretar.”

Svar Dr. Fergusons. “Þakka þér fyrir góða spurningu. Þú ert heimsk heimsk og heimsk.” OK, kannski ekki alveg svona, en innihald svarsins var nokkuð svipað, aðeins að það tók fimm mínútur að flytja svarið, og fullt af löngum fjölatkvæðisorðum.

Lokaorð fyrirlestursins. Njáll varar Bandaríkjamenn við. Þeir eru of sjálfsöryggir og þetta sjálfsöryggi getur auðveldlega breyst í skelfingu ef eitthvað fer úrskeiðis. Hann endurtekur aftur að Bandaríkjamenn geta ekki leyst málin í Írak á nokkrum mánuðum, heldur á uppbyggingarstarfið eftir að taka mörg ár. Að lokum hvessir hann augun yfir áhorfendaþvöguna og segir með merkilegri röddu: “If you leave Iraq as nothing more than a battlefield with a ballotbox, the consequences will be dire. Empire is a serious business.”

Ég og Edward gengum út politically excited and morally confused. Niall Ferguson er hinn versti skálkur. Hann er einn af þessum hægrimönnum sem hafa öfgahægri skoðanir en tekst að fela það á bak við gífurlega sjarma. Hann nær auðveldlega til áhorfenda og tekst að lauma að þeim skoðunum sínum án þess að þeir taki eftir því. Allt í allt, þá var hann mjög áhugaverður, en þar sem ég er dedicated vinstrimanneskja gekk ég ekki út á skýi eins og eftir hann Eric Hobsbawm sem ég sagði frá hér fyrir neðan. En við verðum að vita hvernig óvinurinn hugsar (LOL. Nú er ég að festast í tvíhyggju, svart-hvítt hugsunarhætti kaldastríðsins, eins og goðið hann Eric Hobsbawm myndi orða það).

En látum Njál hafa síðasta orðið. Eins og dyggir lesendur þessa leiðara vita, þá komst Edward inn í Oxford og mun því yfirgefa okkur á næsta ári. Njáll, sem kenndi um árabil við skólann segir hann haldinn “the gloom and despondency of post-imperialistic decline”. Hahaha. Gott á þig Edward. Þrátt fyrir að þú eigir eftir að verða doktor þegar þú verður 24 ára (kemur í ljós að doktorsnámið er aðeins 2 ár í Bretlandi), þá verðum við í spennó New York, en þú í leiðinlegum smábæ í rigningarlandinu mikla. Og hananú!

13:26

Comments: Skrifa ummæli

Efst á síðu

This page is powered by Blogger.
Skyndikrækjur
Bríet.is
Þórey Mjallhvít

Kólumbíuháskóli
Enskudeildin í Kólumbíu
Húsið mitt

Aðrir vefleiðarar
Eagle & Weasel
Sveit(t)astelpan
Sparkle Motion
Fláráður
Rói
Brantley
Fellow librarian
Atallus
Ylfa
Þórey Mjallhvít
DíDee
Diary of a Feminist


Eldri greinar
<< í dag




2002
brynhildur