laugardagur, apríl 5
Enn og aftur er ég komin langt afturúr í þessu verkefni mínu að skrifa líf mitt. Hvað get ég sagt? Látum endursögnina hefjast.
Laugardagur. Man ekki hvað gerðist. Hef líklegast verið að slæpast.
Sunnudagur. Eyði morgninum í að leika mér í tölvunni og þykjast vera að læra. Um hádegið tek ég þá ákvörðun að þetta gengur ekki lengur, hringi í Allison og Helenu, og við hefjum vídjógláp. Þar sem við erum einar stelpurnar í fyrsta skipti í langan tíma ákveðum við að fara alla leið og leigjum Sweet Home Alabama. SHA hefur þann heiður að vera leiðinlegasta og lélegasta mynd sem ég hef séð í langan tíma og myndin fer svo í taugarnar á okkur þremur feministunum að við förum aftur út og tökum Dangerous Liasons. Allar þrjár verðum við aftur ástfangnar af John Malkovich og Madame Merteuil er orðin að nýrri fyrirmynd okkar (eins og elsku Mme M segir: "I knew it was my mission to oppress your sex and avenge my own").
Mánudagur. Skrif skrif og aftur skrif. Tek mér fjögurra tíma hlé til að fara á fyrirlestur með Eric Hobsbawm, verð ástfangin af þessum 87 ára hrukkótta Breta, og fer í leiðinlega kennslustund um Jane Austen. Meiri skrif. og skrif og skrif.
Þriðjudagur. Vekjaraklukkan er stillt til að vekja mig klukkan sex um morguninn svo ég geti lokið við meistararitgerðaruppkastið mitt í tæka tíð við viðtalstíma Jean klukkan tíu um morguninn. Vakna klukkan hálfeitt. Hleyp í offorsi í tölvuna og byrja að hamra inn lokaorð ritgerðarinnar, svara í símann og hlusta á Allison og Helenu blaðra um að nemendafélag Kólumbíu sé að standa fyrir nektaralmanaki kvennemenda skólans, og hvað þær langi til að taka þátt. Umla áhugalaust í símann á móti meðan ég pikka inn í tölvuna þar til þær gefast upp á því að reyna að æsa mig upp og öskra "1 apríl". Viðbrögð: uml og pikk. uml og pikk. Ritgerð lokið klukkan hálffjögur. Kemst að því að prentarinn minn er bleklaus. Tekst að prenta út ritgerðina í fimmta prentaranum sem ég reyni í bókasafninu, læðist inn á skrifstofu enskudeildarinnar, lauma uppkastinu (ásamt afsökunarbeiðni) í pósthólf Jean, geng út, bíð eftir lyftunni og... hitti JEAN. Sem er afar næs. Og við förum inn á skrifstofuna og tölum um ritgerðina og um daginn og veginn og mér líður betur...nokkurn veginn. Fer heim, kveiki á tölvunni, kemst að því mér til mikillar skelfingar að Bloggerheimasíðan er niðri og ég get ekki skrifað um þessar skelfilegu klukkustundir, fæ svæsin bloggfráhvarfseinkenni og til að dreifa huganum djúphreinsa ég baðherbergið og læt litla Belgann minn elda fyrir mig mat. Kasta fjarstýringunni í sjónvarpið þegar ég kemst að því að í stað nýs Buffyþáttar er enn ein endursýningin og fer að lokum í heimsókn til Allisonar þar sem við og Edward skemmtum okkur í þrjá tíma við að lesa upphátt leikritið A Chaste Maid in Cheapside frá 1613. Allison vinnur leiksigur með smámælta Tim, Edward fer á kostum í hlutverki indverska elskhugans Touchwood Jr. og ég sýni mikla tilþrifi í hlutverki rússneska mafíósans Sir Walter Whorehounds.
Miðvikudagur. Letilegur dagur að öllu leyti. Morguninn hefst á kaffi frá Olive Tree delíinu og kennslustund með Jean. Að því loknu verst ég allra tilboða um lunch með liðinu og fer og stússast á Broadway áður en ég fer heim til að gera mest lítið, leggst upp í sófa og næ að horfa á hálfan X-Files þátt um mannætur og the Human Bat áður en ég þarf aftur að böggast út til að hitta Edward og fara á fyrirlestur með Niall Ferguson niðrí bæ. Eftir fyrirlesturinn erum við bæði tvö horrified og morally confused og ég þar að auki heimilislaus þar sem Hailey er búin að bjóða 20 hagfræðistelpum að koma í heimsókn heim til okkar að böggast um peningamál. Flækist fram og til baka milli Helenar og Allisonar allt kvöldið og deginum líkur á því að ég horfi á síðasta hálftímann í hafnarboltaleik starring Yankees og Blue Jays. Edward er stórmóðgaður. Apparently eyðilagði ég íþróttaleikinn með því að spyrja á þrjátíu sekúndna fresti hvað væri í gangi. Ég held líka að hann hafi ekki verið nógu ánægður með alla brandarana sem ég lét gossa um rassastærðina á Yankees hafnarboltaguttunum.
Fimmtudagur. Ah. dagurinn. Letilíf. Fiffa til í javatungumálinu á Rochesterheimasíðunni minni, gefst upp og set hana á netið þrátt fyrir að hún líti fáránlega út í Mozilla vafranum (nördafimmprósentin í netheimum verða bara að lifa án heimasíðunnar minnar). Fer í tíma. Fer heim, horfi á nokkrar Batmanteiknimyndir, mála mig, fer í eina af nýju skyrtunum mínum og hitti enskudeildina á barnum DingDong á 105 stræti og Columbus. Lendi í miklum pólitískum umræðum við Cólín um verkalýðsfélög og um sokka við Rishi, geri grín að Yankeestreyjunni hans Edwards, geng klukkan hálftólf, brýt Clarins meikflöskuna mína, ríf í hárið á mér í örvæntingu og fer að sofa.
Föstudagur. Mér til mikillar furðu vakna ég klukkan sex um morguninn. Hugsa með mikilli vanþóknun í fimm mínútur um duttlunga örlaganna sem láta mig sofa til eitt þegar ég á að vakna klukkan sex og vakna klukkan sex þegar ég má sofa til níu. Hoppa síðan endurnærð úr rúminu og dríf mig frammí stofu þar sem ég kveiki á nýjustu fréttunum frá stríðinu í Írak, horfi á fleiri Batmanteiknimyndir og einn Buffyþátt. Klukkan hálftíu er ég síðan mætt hress og sæt (þó ómáluð) niðrí La Maison Francaise niðrí skóla þar sem mikil ráðstefna er haldin um borgarskrif á miðöldum og endurreisnartímanum í Evrópu. Sit þar í góðum félagsskap fleiri nemenda sem allir yfirgefa staðinn í hléinu. Sérlega var velkomið að Allison og Edward skuli hafa farið. Greyin höfðu ekki farið að sofa nóttina áður, þar sem gleðskapurinn entist svo lengi hjá ákveðnum hóp enskunemenda, og það var hrein þjáning að sitja á milli þeirra (áfengislyktin, lyktin lyktin...) Ég, haldin uppi af kaffibollum frá Olive Tree Deli, held út til loka ráðstefnunnar. Á mælendaskrá voru:
Ung prófessorgella frá Yaleháskóla með afar lélegan fyrirlestur. Var mjög ánægð með að heyra hve lélegur fyrirlesturinn var, því að ef þessi kona fékk starf frá Yale (sem af ástæðum, of löngum og leiðinlegum til að greina frá hér, er oft nefndur sem besti og virtasti bókmenntafræðiskóli heims), þá er ég made kona.
Jean Howard.
Sætur strákur á sjöundaári í prógramminu í Kólumbíu, með skemmtilegan fyrirlestur um svalir og glugga í London í byrjun sautjándu aldar, og hvernig orðræðan vinnur úr þessum svæðum/stæðum/bilum/verum.
Þýskur listfræðingur með Powerpoint sýningu á Konstantínópel á fjórðu öldinni og hvernig keisararnir leikstýrðu skrúðgöngum.
Afar leiðinlegur fyrirlestur um túnisísku borgina Bejaija á 14. öldinni. Fyrirlesturinn líklegast enn leiðinlegri fyrir vikið því að höfundur hans komst ekki á staðinn og lét rannsóknaraðstoðarmann sinn lesa upp fyrir sig í mónótón. Ég hélt mér vakandi með því að að stara á aðstoðarmanninn, sem var líklegast rétt tæplega þrítugur, ekki feitur, en, shall we say, flabby, og klæddur í afar óheppilega þrönga, þunna peysu. Peysan lagði glettnislega áherslu á barm hans, sem hreyfðist í takt við lesturinn.
Gamall listfræðingur með powerpoint sýningu á kirkjum í Frakklandi. Listfræðingurinn hóf tölu sína á því að segja frá því hvernig skilningur okkar á arkítektúr hafi verið gjörbylt með tilkomu tölvutækninnar. Tölvutæknin gerir okkur kleyft að sjá byggingar á nýjan hátt, hátt sem bækur hafa ekki leyft okkur. Fór æsingurinn reyndar alveg með greyið. Honum fannst svo mikið til um nýju tæknina að hann eyddi tímanum fyrir framan skjávarpann, svo að helming tímans var hann fyrir ljósgeislanum og skjárinn var svartur, og hinn helming tímans var hann fyrir skjánum sjálfum. Fimm sinnum mundi hann eftir því að hann ætti kannski ekki að standa frammi fyrir myndinni og færði sig aðeins til hliðar en var ætið kominn aftur á sama stað hálfri mínútu síðar í spenning sínum. Tæknimaðurinn sem stjórnaði sýningunni og bar ábyrgð á myndunum sem sýndar voru virtist vera vanur fyrirlesaranum og brosti aðeins í kampinn þegar listfræðingurinn var í mesta hamnum fyrir framan myndirnar. Það sem ég sá af myndunum var mjög impressive. Leysigeislar voru notaðir til að taka myndir af byggingunum og endurskapa þær í virtual reality og notandinn gat ráðið hvert myndavélin færi. Þegar fyrirlestrinum lauk gekk ég að Andy, tæknimanninum og spurði hann hvar hann lærði að búa til svona myndir (Ég þarf kannski ekki að minnast á að hann var hár, myndarlegur, grannur, næpuhvítur, með svart hár, barta, svört kassagleraugu, klæddur í svarta skó, svarta sokka, svartar buxur og svartan rúllukragabol. Semsagt, menntaskólaástin!). Hann sagði mér að hann hefði átt tölvufyrirtæki áður en hann komast að því að "life is meaningless" og byrjað í listfræði. Og ég blikkaði hann og svaraði "from which point you have worn black turtlenecks and berets" og hann umlaði.
Anyways, langur listi og leiðinlegur. Þessu er að ljúka. Það er að fara koma laugardagur. Hlaupum yfir restina af föstudeginum. Fer að versla meik. Geng niður Broadway. Á 115 stræti hitti ég Matt og segi honum frá villta listfræðingnum og tölvuæsingnum. Á 113 stræti hitti ég Patriciu og kærastann hennar og blaðra um skólann og hvað við eigum að gera þegar ritgerðarsmíðum er lokið. Á 112 stræti hitti ég Ligu sem ég sný við og dreg hana með mér í verslunarleiðangur. Á leið okkar niður Broadway (já, ég geng alla leið niður á 72 stræti) förum við í the Wiz, Starbucks, the Gap, Victoria's Secret, quaint antíkbúð og Sephora. Og síðan er haldið heim á leið þar sem ég horfi á Strictly Ballroom, og heng í tölvunni og les og geri almennt ekki neitt og núna er komin laugardagsmorgun og ég er andvaka og ætli ég þurfi ekki að fara að sofa núna svo ég sé viðræðuhæf á morgun/í dag.
05:06