föstudagur, mars 7
Veikindi eru bömmer. Ég er búin að liggja í rúminu og hósta og hósta og sjúga upp í nefið og fer á hálftíma fresti til að kveikja á CNN í stofunni, en aðeins í fimm mínútur, því að þá slekk ég á sjónvarpinu með hryllingi og hoppa aftur í rúmið. Er núna að velta því fyrir mér hvort ég eigi að klæða mig og hlaupa út til að ná í pening, því að Brynhildur þarf að þvo þvott. Ég er umvafinn óhreinum fötum í svefnherberginu, svo jafnvel mér verður um of. Já, og er að vona að veikindin endist fram á kvöldið því að Little Jon er búinn að bjóða öllum í "kegger" partí í kvöld, sem engum langar sérstaklega til að fara í. Hann og lögfræðiíbúðarfélagi hans eru búnir að kaupa saman tunnu af bjór, og lögfræðiguttinn er búinn að bjóða fimmtíu lögfræðinemum og tíu menntaskólanemum í partíið, meðan við í enskudeildinni hugsum til fyrrverandi (leiðinlegra) partía hjá Little Jon og skjálfum.
Síðan eru stórfréttir héðan úr fyrstaárshópi enskudeildarinnar. Allir strákarnir sem voru búnir að sækja um að komast í doktorsnámið eru að fá svörin núna. Hingað til hefur einn fengið nei og einn já, og við bíðum núna í ofvæni eftir að vita hvort að sá síðasti komist inn. Mikill taugastrekkingur skal ég segja ykkur. Gisp. Gott að ég skuli vera veik.
14:43