miðvikudagur, mars 19
Stríðið er byrjað. Þeir klipptu á Angelþáttinn sem ég var að horfa á þegar aðeins tvær mínútur voru eftir og fóru í einhverja Special Report þar sem sagt er að "afvopnunin" sé hafin (talandi um að tala undir rós!). Mjög pirruð. Fíflin.
Það er ekki eins og fréttastöðvarnar hérna segja okkur neitt. Ég er að segja ykkur, að ég þurfti að fá fréttir frá Comedy Channel, þar sem þeir birtu úrklippur af mótmælum héðan og þaðan úr heiminum (til þess að gera grín að Bandaríkjamönnum). Þessar úrklippur hafa auðvitað ekki verið sýndar á CNN, FoxNews eða MSNBC sem sýna bara sætar fréttir af foreldrum hermanna sem eru að safna kössum með nammi til að senda út.
Ástandið er furðulegt. Vinur minn fór og keypti sér flugmiða í gær. Hann gekk inn á skrifstofuna á flugfélaginu, Virgin Airlines, sem var með sameiginlega sölustofu með American Airlines og Delta Airlines. Afgreiðslukonan tekur á móti honum og spyr: "American?" Hann svarar autómatískt: "No, European." Þögn í nokkra stund og síðan fatta allir á skrifstofunni hvað hann sagði og byrja að skellihlæja... Allir. Geðshræringahlátur. Því að really, þetta var ekki það fyndið, ef ekki væri fyrir umræðurnar um Bandaríkin og Evrópu hérna síðustu dagana.
22:03