Dagbók
Myndir
Greinar
Krækjur
Senda póst

þriðjudagur, mars 11
 
Sólin skein í fyrsta skipti í langan tíma inn um skrifstofugluggann minn á sunnudagsmorguninn og þegar ég vaknaði á hádegi, dreif ég mig í nýja sófann minn og flatmagaði þar í tvo tíma í sólinni. Klukkan þrjú geispaði ég, settist við tölvuna, og skemmti mér í klukkutíma við að hreinsa til í tölvupósthólfinu mínu, þar sem 632 ólesin bréf biðu eftir mér. Klukkan sjö mínútur yfir fjögur fleygði ég mér afturábak í skrifborðsstólnum frá IKEA, gerði nokkrar teygjuæfingar og starði með ánægjusvip á nýja og hreina pósthólfið mitt, með aðeins 207 bréf í hólfinu. Síðan hóf ég að skrifa ritgerðina sem ég átti að skila inn daginn eftir. Og þá hófst hasarinn.

Ritgerðin átti að vera um tímarit sem birt var frá 1798 til 1821 í Englandi, The Anti-Jacobin Review, sem var eitt helsta málgagn afturhaldssinna (ahem: íhaldsmanna). Ég fletti letilega í gegnum bækurnar sem ég hafði tekið á bókasafninu um pólitísk tímarit á þessum tíma og í gegnum textann á tímaritinu... þegar... ég sé að ég hef ekki textann á The Anti-Jacobin Review, heldur The Anti-Jacobin, tímariti sem kom út 1797 til 1798. Í panikkasti fer ég í bókasafnskerfið og leita að tímaritinu mínu og sé að það hefur aldrei verið endurprentað. Ég fer á öll gagnasöfn á netinu sem ég gat ímyndað mér og finn ekki textann. Eina leiðin til að nálgast The Anti-Jacobin Review er að lesa upprunalegu útgáfuna sem aðeins er til staðar í Rare Book and Manuscript Library í Butlerbókasafninu... sem aðeins er opið frá hádegi á virkum dögum. Kaldur sviti brýst fram á enninu og ég tek andköf í IKEA stólnum mínum. Ég hamra inn í tölvuna fjórar blaðsíður þar sem ég púsla saman því efni sem ég finn í heimildunum um textann, og þegar því er lokið hefst ég við að lesa skáldsögurnar tvær sem ég átti að lesa fyrir morgundaginn (jájá já já ég veit að ég hefði fyrir löngu átt að lesa þær sögur). Ég fer að sofa klukkan hálftvö, aðallega vegna þess að orðin í Ferðum Gúllívers synda fyrir augunum á mér og bókin datt niður á gólfið þegar ég hafði ekki orku til að skipta um stellingu í rúminu.

Og þá er kominn mánudagur. Ég vakna harkalega klukkan hálfátta að morgni til þegar Allison hringir í mig til að vekja mig fyrir deildarfundinn þá um morguninn. Ég hafði nefnilega asnast til að komast í einhverja "graduate hiring committee" þar sem ég og nokkrir aðrir framhaldsnemar hittum þrjá kandidata fyrir starf hjá kynjafræðideildinni í Kólumbíu og skiluðum inn áliti okkar til höfuðs deildarinnar. Eftir að hafa gólpað í mér hálfum lítra af kaffi er ég í annarlegu ástandi, sit og stari á stóru prófessorana sem stara á mig til baka og ég segi þeim hvað mér fannst um þremenneningana (in this case, rather, þrekvenningana). Eftir að við stúdentarnir höfum verið reknir út hefst ég aftur við Swift og harka mig í gegnum bókina og hef að lesa Adeline Mowbray eftir Opie. 12:03 er ég mætt í lesstofu handritasafnsins. Þar kemst ég að því að ekki er hægt að ljósrita úr eigum safnsins, og þar sem ég er ekki með ferðatölvu, eyði ég næsta eina og hálfa tímanum í að handskrifa þær greinar úr tímaritinu sem ég þarf á að halda.

Smá innskot: ekki gleyma Said. Said elskan er með tíma á mánudögum. Hann var í vicious skapi þann dag. Kallaði okkur ólesna fávita, spurði hvað við vorum að gera í framhaldsnámi o.s.frv. En þar sem ég var í óvenju annarlegu skapi, rétti ég upp hönd í fyrsta skipti í þessum tíma (sigh. goðið mundi nafnið mitt...) og hélt langa ræðu um Gúllíver og siðfræði og karaktersköpun og karaktervöxt og hvernig það tengist myndun skáldsagnahefðar. Said hefur reyndar þann sérstaka hæfileika að klippa niður allt sem nemendur hans segja, svo að í rauninni var þetta ekki löng ræða, heldur margar stuttar, því að á fimmtán sekúnda fresti grípur hann fram í, spyr nemandann til að útskýra betur orð eða hugmynd sem nemandinn er að reyna að hiksta upp úr sér. Ég entist óvenju lengi. Flestir stoppa við annað eða þriðja framígrip. Ég entist í fjögur!

En nóg um Said. Eftir tímann hleyp ég heim og pikka inn textanum sem ég hafði skrifað niður í handritasafninu. Tók það óvenju langan tíma þar sem hægri höndin á mér var dofin eftir skriffestivalið mitt (which brings me to another point: er nútímakynslóðin hætt að geta skrifað með blýant og penna? Ég get það ekki lengur...). Ég sendi frá mér ritgerðina í tölvupósti klukkan sautján mínútur yfir fimm, held áfram að lesa Adeline sem ég átti að hafa klárað fyrir klukkan sex (náði að lesa 168 blaðsíður af 273), hleyp síðan í skólann og sit og geispa í tvo klukkutíma.

Klukkan átta fæ ég brilljant hugmynd. Ég ákveð að fara í sund og vona að kalda vatnið í lauginni eigi eftir að vekja mig nóg til að lesa Joseph Andrews eftir Fielding fyrir morgundaginn. Ég hefði átt að vita betur, sérstaklega eftir að hafa fitlað við skápinn minn í fimm mínútur án þess að geta opnað hann og komast síðan að því að ég var að reyna að opna vitlausan skáp. Í stuttu máli, þá braut ég á mér fótinn þegar ég var að snúa mér við í lauginni og setti síðan gat á sundbolinn minn í þeytivindunni í búningsklefanum. Ég er búin að haltra í allan dag. Very Byronic if I do say so myself! (ha! Ég fíla að vera í umhverfi þar sem fólk skilur þennan brandara strax).

Já, og ég er ennþá atvinnulaus. Gisp.

18:30

Comments: Skrifa ummæli

Efst á síðu

This page is powered by Blogger.
Skyndikrækjur
Bríet.is
Þórey Mjallhvít

Kólumbíuháskóli
Enskudeildin í Kólumbíu
Húsið mitt

Aðrir vefleiðarar
Eagle & Weasel
Sveit(t)astelpan
Sparkle Motion
Fláráður
Rói
Brantley
Fellow librarian
Atallus
Ylfa
Þórey Mjallhvít
DíDee
Diary of a Feminist


Eldri greinar
<< í dag




2002
brynhildur