Dagbók
Myndir
Greinar
Krækjur
Senda póst

miðvikudagur, mars 19
 
Þrjár ölduhreyfingar feminismans. Þetta er reyndar stórmerkilegt málefni, og ég er alveg viss um að mörg ykkar, vinir mínir, vitið ekki nóg um þetta. Svo eins og fress sem kastar vatni á runna til að kasta eign sinni á hann, gef ég ykkur nú þessar upplýsingar.

Sögu feminismans hefur löngum verið skipt niður í þrjú tímabil sem oft eru nefnd öldur eða bylgjur. Þessi nafnahefð, að kenna útbreiðslu feminismans við flóð og mismunandi tímabil hans við öldur kemur upphaflega frá Bandaríkjunum en hefur nú breiðst út til annarra landa. Við höfum öll heyrt þessi hugtök: fyrsta, önnur og þriðja bylgja, en fæst gerum við okkur grein fyrir hvað þau merkja. Því er við hæfi að útskýra þau áður en lengra er haldið.

Fyrsta bylgja

Fyrsta bylgjan vísar til súffragettanna sem börðust fyrir kosningarétti kvenna á nítjándu öld og í byrjun hinnar tuttugustu. Súffragetturnar háðu harða baráttu fyrir kosningaréttinum, þá sérstaklega í Bretlandi þar sem fjölmargar þeirra voru handteknar og misþyrmdar af yfirvöldum. Þessi bylgja varð aldrei stór á Íslandi og þegar íslenskar konur fengu kosningarétt árið 1915, virðist það almennt hafa komið flestum á óvart. Bríet Bjarnhéðinsdóttir er þekktust íslenskra kvenna sem tilheyrðu fyrstu bylgjunni.

Önnur bylgja

Önnur bylgjan vísar til kvennahreyfinga á sjöunda og áttunda áratugnum. Konur vöknuðu þá til vitundar að þrátt fyrir að kosningaréttinum hafi verið náð, hallaði enn á konur í samfélaginu. Á þessum áratugum var mikil gróska í kvenréttindabaráttu. Fjöldi hópa spruttu upp sem hver hafði sína skoðun á hvernig jafnrétti skyldi náð. Þessir hópar náðu miklum árangri að ná fram jafnrétti í samfélaginu. Flest þau réttindi sem nú á dögum eru talin sjálfsögð, svo sem rétturinn til sömu launa fyrir sömu vinnu og rétturinn yfir eigin líkama, er baráttu þessara kvenna að þakka. Barátta þessarar hreyfingar var svo almenn og svo sýnileg að þegar fólk í dag hugsar um feminisma, hugsa flestir um hreyfingar þessara ára.

Ekki er hægt að finna eina allsherjar skilgreiningu á þeim feminisma sem tíðkaðist á þessum árum. Hóparnir sem urðu áberandi á þessum tíma voru allt frá virðulegum og gamalgrónum stofnunum eins Kvenréttindasambandi Íslands til nýrra og öfgakenndra hópa eins og Rauðsokkanna. Ef til vill er hægt að draga saman kenningar þessara mismunandi hópa í eina setningu sem kom fram í bók Simone de Beauvoir, Le Deuxiéme Sexe árið 1949: "Þú fæðist ekki kona, heldur verður þú kona." Feministar þessara ára lögðu áherslu á það að kynhlutverkin voru ekki eðlislæg heldur ásköpuð af samfélaginu.

Þriðja bylgja

Þriðja bylgjan er merkileg fyrir þær sakir að upphafskonur hennar tilheyra fyrstu kynslóð kvenna sem elst upp við að kvenréttindi séu talin sjálfsögð mannréttindi. En hún skarast frá forverum sínum tveimur að því leyti að hún er ekki pólitísk fjöldahreyfing. Upphaf þriðju bylgjunnar má reka til upphafs tíunda áratugar tuttugustu aldarinnar. Hún hefst í háskólum vesturlanda og er ennþá aðallega bundin innan akademíunnar. Þriðja bylgjan leggur mikla áherslu á fjölbreytileika. Hugtök eins og póstfeminismi, neofeminismi, öðruvísi, hinsegin og kynusli eru algeng meðal áhangenda hennar.

Þriðja bylgjan hefur þó oft verið gagnrýnd fyrir að vera njörvuð niður í akademíuna og höfða ekki til almennings. Að því leyti dettur hún niður í sömu gryfju og forverar hennar. Þriðja bylgjan gagnrýnir eldri femínista fyrir að hunsa konur af minnihlutahópum en er sjálf gagnrýnd fyrir að höfða bara til akademísku elítunnar og hunsa hinn almenna lesanda. Baráttumál þriðju bylgjunnar hafa einnig talist heldur óljós. En þær svara því að þriðja bylgjan felist í ákveðinni afstöðu frekar en ákveðnum baráttumálum. Þessi afstaða er sú sem stundum hefur verið dubbað grrrl power. Hún felst því að viðurkenna fjölbreytileika einstaklinganna og rétt kvenna til að vera þær sem þær vilja og gera það sem þær vilja.

Ein ástæðan fyrir því að þriðju bylgjunni hefur ekki enn tekist að safna sér saman í kringum eitt ákveðið pólitískt markmið er vegna þess að misréttið er ekki lengur eins augljóst og það var í fortíðinni. Mismunun felst nú oft í menningunni og það er með menningunni sem þessir póstfeministar reyna að breyta því. Leikvangur þeirra er ekki lengur lands- og sveitarstjórnmál, heldur er það á blöðum tímarita, bóka, dagblaða, menningarrita og netsíðna og á sviði leiklistar, tónlistar, myndlistar og kvikmyndalistar. Ekki er víst að þriðju bylgjunni takist nokkurn tímann að hasla sér völl í stjórnmálum. Eins og er, hefur hún lítinn áhuga á því. En hver veit, hennar tími mun kannski koma...

09:30

Comments: Skrifa ummæli

Efst á síðu

This page is powered by Blogger.
Skyndikrækjur
Bríet.is
Þórey Mjallhvít

Kólumbíuháskóli
Enskudeildin í Kólumbíu
Húsið mitt

Aðrir vefleiðarar
Eagle & Weasel
Sveit(t)astelpan
Sparkle Motion
Fláráður
Rói
Brantley
Fellow librarian
Atallus
Ylfa
Þórey Mjallhvít
DíDee
Diary of a Feminist


Eldri greinar
<< í dag




2002
brynhildur