Dagbók
Myndir
Greinar
Krækjur
Senda póst

föstudagur, mars 14
 
Ég og Edward fundum fullkomið tækifæri til að fá útrás fyrir allar andamerískar hugsanir sem við höfum haft síðustu tvo mánuði. Við fórum á fyrirlestur í gær hjá einum Gilberti Achbar, frönskum fræðimanni sem kennir við Sorbonne í Parísarháskóla og er kannski einna þekktastur er hérna í Bandaríkjunum fyrir bókina The Clash of Barbarisms. Fyrirlesturinn bar heitið "Iraq and the New US Empire".

Þegar við göngum inn í fyrirlestrarsalinn er hann hálffullur, af miðaldra fræðikonum og -mönnum (sem flest eru, samkvæmt hreimnum þeirra, ekki bandarísk). Meðan við bíðum eftir framsögumanni hlustum við Edward andaktug hvernig fræðifólkið leysir vandamál heimsins á fimmtán mínútum, hoppandi frá eyðni í Afríku, yfir í olíuvandamál á miðausturlöndum, yfir í dauðarefsingu í Bandaríkjunum. Við hugsum okkur gott til glóðarinnar að komast loksins í tæri við miðaldraradíkala. Aftast í salnum hefur ungur strákur frá Labyrinth bókabúðinni komið sér fyrir með bunka af bókinni hans Achbar, og ég nota tækifærið til að kaupa bleðiðilinn. Þögn. Achbar gengur inn.

Grey maðurinn er málhaltur á ensku. Enskan hans er fín, en hún er hæg og röddin hans er mjög svæfandi. Áður en við vitum af, erum við Edward farin að dotta, því að það verður að segjast að Achbar var ekkert að pæla í kenningum eða túlkunum, heldur að setja fram staðreyndir um sögu bandarískra áhrifa á miðausturlöndum síðan í heimstyrjöldinni síðari. Flestir áhorfendurnir líta jafn þreytulega út eins og við tvö, fyrir utan eina konu í annarri röðinni sem segir við og við "That's right" þegar Achbar kemur með óvenju svæsið dæmi um bandaríska afskiptasemi í heimspólitík. Það er ekki fyrr en á lokamínútunum að hann kemur með nokkrar spectacularly anti-American setningar og salurinn hrekkur upp. Ég vakna líka upp við vondan svefn, kemst að því að ég er búin að missa af staðreyndunum frá 1992 til 2002 og sparka í sjálfa mig þegar gæinn segir "and this is where we stand now: this is why the US is going to war." Af hverju? Veit ekki. Tíu mínútna lúr kostaði mig ástæðuna.

Edward, sem hefur ekki eins mikla þolinmæði og ég, notar tækifærið og flýr þegar fyrirlesturinn er búinn. Ég sit sem fastast og vona að spurningarnar eigi eftir að hleypa lífi í fólkið. Eftir nokkrar kurteisislegar spurningar og svör er jafnvel ég farin að vera vonlaus og fetti mig og bretti í sætinu til að reyna koma augunum á úrið hjá sessunaut mínum. En þá kemur sprengjan. Einn áhorfandinn stendur upp og heldur langa ræðu þar sem hann ræðst á Achbar, kenningar hans, enskukunnáttu og endar á að segja: "You're reading of American politics is typically European, casting the American public as mindless wareagles. It is a strange fallacy of the European Left that you ignore the emerging European economic superpower and its complicity in the coming war." Kliður fer um salinn. Loksins loksins eitthvað stuð í gangi. Achbar stendur sig vel. Hann byrjar á því að segja að áhorfandinn hafi "wastly underestimated the unity of the European nations. There is no unified European perspective or political mandate. Europe has been unified only when allied behind the US against somebody else." (Hláturskviða fer um salinn.)

Achbar heldur síðan áfram og ég sit og hlusta í undrun. Fer maðurinn ekki og rífur í sig Evrópuþjóðirnar og hvernig afstaða þeirra er til stríðs. Achbar er massa kúl. Að hans mati er Þýskaland aðeins gegn stríðinu vegna þess að Schroeder var að tapa kosningum og fann í kosningabaráttunni eina efnið sem gat haldið honum í kanslastólnum. Enda hefur Þýskaland verið afar þögult um friðarstefnu síðan eftir kosningar.

Frakkland er litlu betra. Achbar heldur því fram að Frakkland fór í Persaflóastríðið upphaflega til að fá sneið af olíukökunnni og þegar þeir fengu ekki neitt eftir lok stríðsins urðu þeir bitrir. Síðan þá hefur það gerst að Saddam Hussein hefur gert samninga við Rússa og Frakka, að rússnesk og frönsk olíufyrirtæki eigi eftir að fá góða samninga um íraska olíu eftir að viðskiptahömlunum hefur verið aflétt (með væntanlegri hjálp Rússa og Frakka sem meðlimi í Security Council Sameinuðu þjóðanna. En auðvitað aðeins ef að Saddam Hussein er enn við völd. Achbar túlkar hegðun Chiracs svo: "Chirac has no illusions to stop the war. The original opposition to the war was a bargaining chip to gain concessions from Washington in a post-Saddam Iraw. That's why his speech, where he elucidated his plea for peace, he also opened up French airspace to the American military. However, Washington and Bush didn't get this beginning move in a diplomatic game, and pushed Chirac in a corner with their complete denial to negotiate." Achbar heldur síðan áfram og segir að það komi ekki að sök, að Chirac er skyndilega orðinn mjög vinsæll í Frakklandi, eftir að hafa unnið kosningarnar á svo leiðinlegan hátt á síðasta ári.

Ráðstefnunni lýkur þegar einn af fáum bandarísku áhorfendunum stendur upp og heldur langa andameríska ræðu þar sem hann rakkar í sig Bush og endar á því að segja að þessu öllu hlýtur að ljúka með að Bush verði kærður fyrir stríðsglæpi. Ótrúverðugt, but heartwarming, og ég hugsa með mér "Go, boy, go!"

Eftir ráðstefnuna pilla ég mig til Achbars og fæ manninn til að skrifa nafnið sitt á bókina sem ég var að kaupa. Þegar ég rölti út, lít ég kæruleysislega til baka og sé að grey Labyrinthstrákurinn á í miklum erfiðleikum og er hlaupandi fram og til baka til að reyna að ná aftur bókunum sínum. Kemur í ljós að flest fræðafólkið hélt að bækurnar voru gefins, tóku nokkur eintök til að fá árituð, án þess að borga fyrir þau. Svona eru akademíkarnir: allir í fílabeinsturninum og hugsa ekkert um svona óhefluð hugtök eins og peninga...

15:20

Comments: Skrifa ummæli

Efst á síðu

This page is powered by Blogger.
Skyndikrækjur
Bríet.is
Þórey Mjallhvít

Kólumbíuháskóli
Enskudeildin í Kólumbíu
Húsið mitt

Aðrir vefleiðarar
Eagle & Weasel
Sveit(t)astelpan
Sparkle Motion
Fláráður
Rói
Brantley
Fellow librarian
Atallus
Ylfa
Þórey Mjallhvít
DíDee
Diary of a Feminist


Eldri greinar
<< í dag




2002
brynhildur