þriðjudagur, mars 18
Ég asnaðist til að kveikja á sjónvarpinu í morgun þegar ég var að borða morgunmatinn og hafa áhyggjur af ritgerðarsmíðinni í dag. Og vitið þið hvað! Reality Bites var einmitt að byrja þegar ég kveikti á kassanum. Reality Bites er myndin. Hún er myndin. Mynd níunda áratugarins. Munum við ekki öll eftir þessum árum, þegar við sátum á Hvítakoti, Café Au Lait og Ara í Ögri (áður en hann varð halló) á hverjum degi, klukkustundum saman, drukkum kaffibolla eftir kaffibolla, töluðum um heimspeki og neindina og hvernig ekkert skiptir máli og hvernig enginn er til og skrifuðum léleg ljóð í dagbækurnar okkar. Gisp. Þetta er allt að koma til baka. Reality Bites. Hvenær lauk áratugnum? Hvenær urðum við fullorðnar? Já og hin myndin með Ethan Hawke, þessi með sætu frönsku stelpunni og lestinni og þýsku leikritunum í Berlín og endalausar endalausar heimspekilegar umræður um tilveruna og ExistenZ. Áratugur Nirvana og karlmanna með kleprað hár niður á axlir og föt úr Hjálpræðishernum. En síðan kom Clueless, heimurinn breyttist og við fórum í Spúttnik í stað þess að fara í Hjálpræðisherinn og Café Au Lait fór á hausinn og eini staðurinn sem eftir var var Kaffibarinn. Og við lifum núna á fyrsta áratug (fyrsta áratug hvers, má ég spyrja?) og ég velti því fyrir mér hvaða mynd ég á eftir að sjá árið 2013 sem fær mig til að dæsa og andvarpa og pæla: þetta var áratugurinn, þetta var bíómyndin, ah, hvenær urðum við fullorðnar?
13:25