föstudagur, febrúar 14
Doktorsvarnir eru furðuleg fyrirbæri. Eins og flestir vita eflaust af, fór fram doktorsvörn nýlega í Háskóla Íslands (það er nú ekki á hverjum degi sem gamli HÍ veitir doktorsnafnbótir). Ármann einn Jakobsson varði ritgerð sína (um eitthvað afar merkilegt efni sem ég veit ekki neitt um). Íslenska doktorsvörnin er forvirret athöfn. Haldinn er opinn fyrirlestur, þar sem doktorsefnið mætir, heldur langa ræðu um efni ritgerðarinnar og bætir mögulega við þökkum til leiðbeinenda og annarra stuðningsaðila. Síðan mæta andmælendur og reyna að segja eitthvað á móti ritgerðinni, og síðan doktorsefnið sem svarar andmælum og ég held að meðmælendur hafi líka eitthvað að skjóta inn við og við. Allt fer þetta fram í hátíðarsal HÍ, og fólk upp á sviðinu klæðist akademískum doktorskuflum og lítur mjög imponerandi út.
Af hverju er ég að tala um þetta? Nú, ég var að finna athyglisverðan pistil á netinu, þar sem sjónarvottur lýsir doktorsvörninni hans Ármanns. Þegar ég las þetta, þá mundi ég auðvitað eftir einu doktorsvörninni sem ég hef haft þann heiður að sjá, þegar Ólína Þorvarðardóttir varð doktor í þjóðfræði. Í minningunni, var þetta brútal athöfn. Byrjuðu herlegheitin (sem fóru auðvitað fram í troðfullum sal) þegar Ólína hélt afar skemmtilegan fyrirlestur um ritgerðarefnið. Síðan hófust andmælin. Ekki voru þau mikil, en tókst gæjanum að tala í klukkutíma um heimildaskrána í ritinu og hvað hún væri léleg (sem, ef pistill sjónvarvottarins sem ég vísaði í áðan, virðist vera mjög svipuð andmæli og sami aðili hélt í vörn Ármanns). Ég var auðvitað kornung þegar þetta fór fram (21 árs, sigh) og ekki nógu sleip í háskólapólitík, en fannst mér þetta vera einum of. (Því miður verður síðan þessari sögu að ljúka núna, því að ég þurfti að flýta mér út úr salnum þegar Ólína var að svara andmælanda, því að ég þurfti að fara í eitthverja fermingaveislu. Hverja? Man ekki.) En síðan, apparently, byrjaði hasarinn. Ekki er nóg með að hnakkrifist (á afar kurteisislegri akademísku) var á sviðinu, heldur hélt baráttan áfram í Morgunblaðinu. Blaðamaður tók upp hanskann fyrir hönd Ólínu og þótti illa vegið að henni í doktorsvörninni. Andmælandi skrifaði grein (lesendagrein ef ég man rétt) þar sem hann varði gjörðir sínar. Ólína skrifaði þá grein sem varði blaðamanninn og sneið að andmælanda. Og síðan skrifaði einhver frönskukennari sem enginn veit hver er grein þar sem hann reynir að vinna úr þessu máli (og tekst engan veginn og endar í hálfsoðnum kvörtunum yfir doktorsnámi almennt).
Nú verð ég að segja að öllum hérna í Kólumbíuháskóla finnst þessi athöfn alveg fáránleg (og hérna gefst mér tækifæri til að koma með beinskeitta gagnrýni á hvernig meistaragráðu- og doktorsgráðuveitingar hérna fara fram, en þar sem ég er löt, læt ég það liggja milli hluta). Hérna fer ekki fram þessi hefðbundna (og úrelda?) opinbera doktorsvörn. Í mesta lagi er fólk kallað til skrifstofu deildarstjóra, þar sem fer fram málamynda spurningakeppni, og síðan er gráðan afhent. Ég verð að segja, að ég er ekki sammála þessum grey Bandaríkjamönnum í þessu máli. Mér finnst alveg sjálfsagt að fræðin séu færð nærri almenningi með því að hafa opinberar doktorsvarnir, þar sem doktorsefnið getur fengið tækifæri til að sýna hvað það er vel lesið og brilljant. En við verðum þó að krefjast þess að það séu einhverjar juicy spurningar sem doktorsefnið þarf að svara. Hvað getur doktorsefnið sagt við gagnrýni á prentvillum og uppsetningu efnisskrár? Beðist afsökunar? Lofað því að það gerist aldrei aftur? Fáránlegt! Við krefjumst þess að eftir að hafa eytt síðustu fimm árum lífs okkar við að vinna að doktorsbleðli, að við fáum tækifæri til að svara spurningum sem skipta máli.
16:19