miðvikudagur, janúar 22
Núna hefur einn af fáeinum vefleiðurum sem ég hef lesið reglulega hætt starfsemi. Ég var sorgmædd fyrstu fimm mínúturnar, en fór svo að hugsa. Ég get engan veginn séð eftir þessari lokun. Það sem ég þekki manninn ekki neitt var það bara helber forvitni að ég las þessa síðu reglulega, og þegar ég lít til baka kemur í ljós að síðan hefur ekki skilið neitt eftir sig. Ég þekki engan af þeim sem talað var um á síðunni, og hugrenningarnar sem komu fram á síðunni voru svipaðar hugsanir og renna um hug okkar allra á hverjum degi.
Og ekki verður neitað að það er erfitt fyrir fólk sem stefnir á feril í stjórnmálum eða menningarmálum að halda uppi síðu þar sem allt er látið flakka, sama hvað samhengislaust og óritskoðað sem það er. Vefleiðarar eru engin einkamál. Ef þeir væru einkamál, væru þeir skrifaðir í dagbókunum gömlu góðu sem við fáum í afmælisgjafir frá fólki sem þekkir okkur ekki nógu vel og þarf að kaupa eitthvað sætt í Pennanum.
Og einnig verður að hugsa til þess að Helló: Maðurinn býr á Íslandi. Það eina hlutverk sem ég get séð að vefleiðarar þjóna er:
Séð og heyrt hlutverkið þar sem allt er látið flakka til að sanka að sér lesendum. Þetta hlutverk er svipað öllum lélegu sjálfsævisögunum sem koma út á hverju ári á Íslandi þar sem fólk sem hefur vakið athygli á síðastliðnum árum "opna" sig fyrir augum annarra Íslendinga í þeirri von um að aðrir hafi áhuga (and they're not wrong. Íslendingar lepja það.)
Trúboðshlutverkið þar sem fólk skrifar síðu með því takmarki að breiða út boðskap. Ein afarléleg síða á íslensku sem ég man eftir í augnablikinu er þessi. Athyglisverðar síður--sem mannfræðitilraun.
Þerapía. Need I say more. Jú kannski: ef til vill einlægustu síðurnar sem hægt er að nálgast, og þær skemmtilegustu.
Upplýsingahlutverkið. Vefleiðarar fólks sem ferðast mikið, býr erlendis og vill minnka við tölvupóstinn sem það þarf að skrifa. Oft mjög leiðinlegar og þurrar síður.
Nú vilja kannski margir bæta við enn öðrum flokki: að sumt fólki vilji bara skrifa á netið því að það sé þeirra samskiptamáti við umheiminn og við sjálft sig, að það hafi engan áhuga á því hvort að leiðarar þeirra séu lesnir, o.s.frv. Ég svara á móti að það sé aðeins eitt afbrigði af séð og heyrt syndrómunni, aðeins falin (hahaha: séðogheyrtduld).
Hvar er ég? Nú ég réttlæti mig með því að halda því fram að ég sé í síðasta flokknum, but let's face it: auðvitað er ég séð og heyrt gella. Hver vill ekki finna fyrir þessari tilfinningu að aðrir hafi áhuga á því sem kona segir? Að kona sé merkileg og mikilvæg og lestrar verð? Mun ég halda áfram að skrifa á þessa síðu þegar ég kem aftur til Íslands? Ég efa það, nema þá að ég flytji það yfir á ensku svo að vinir mínir erlendis geti lesið um ævintýri mín á Íslandi. En hver veit? Kannski mun ég varpa öllum dulargervum og allri hræsni, staðsetja mig allsendis ófeimin í fyrsta hópnum og halda áfram að skrifa á íslensku, þótt að ég hafi dagleg samskipti við alla lesendur. En ég efast um það. Ég er of mikill hræsnari til þess.
Já já, ég veit ég er komin aftur í þessa póstmódernísku klisju um lesendur og rithöfunda og hvaða hlutverki gegna skrif í lífinu og hvað er ég að gera og hver er tilgangur lífsins og er lífið yfirhöfuð til. Það sem ég hef viðurkennt að ég sé hræsnari, endilega skrifið athugasemdir ef þið eruð ósammála þessum skilgreiningum mínum. I need to feel important and read. Bleugh.
22:19