laugardagur, janúar 11
Grey Helena er að farast. Hún heldur áfram að reyna að lesa síðuna mína með hjálp þessarar afarlélegu þýðingarþjónustu þótt að það hafi sýnt sig fyrir löngu að þær eru engan vegin áreiðanlegar. Svo hringir hún í mig á hvaða tíma sólarhrings til að spyrja hvað ég hafi sagt um sig. Hún er að hugsa um að gera eftirfarandi að mottói sínu: "Helena is high time river ... scholastic trajectory. She is verbalism publisher ..." (Þetta er auðvitað þýðingin á "Helena er komin á þessa akademísku braut. Hún er orðin útgefin fræðikona.")
Hef verið að reyna að komast að því af hverju þessu síða þýðir svona fáránlega. Hef komist að því að: snuggle up to er þýðingin á að , pay lip service to er þýðingin á fyrir accustom er þýðingin á við og að á brjósti er þýðingin á sögninni að hafa. Fáránlegt...
En þar sem ég vil auðvitað halda ákveðinni mysteríu í þessari blessaðri deild þar sem allir virðast vita allt um alla, hef ég þverneitað að þýða neitt fyrir neinn. Í staðinn bendi ég öllum á þessa eðalsíðu, þar sem erlendir vinir mínir geta komist að öllum svæsnu leyndarmálunum um mig.
00:22