mánudagur, janúar 27
Ég er loksins búin með Theory of the Novel. Það tók mig aðeins átta klukkustundir að fara í gegnum 150 blaðsíður (gisp). Og, ég get með sanni sagt, að þetta voru átta klukkustundir sem ég á alltaf eftir að sjá eftir. Það er ekki eins og ég er stolt af að komast í gegnum þessa alls gagnslausu bók. TotN (as I have affectionately dubbed it) er gamaldags, úreld, leiðinleg, illa skrifuð þvæla. Þetta er ein af fáum bókum sem ég, bókaormurinn langi, segi hiklaust að enginn þurfi að lesa nokkurn tímann aftur. Þetta er ein af þeim bókum sem hægt er að endursegja á einni blaðsíður í Literary Theory for Dummies og láta þar við standa. Það á ekki að gera fólki þetta, að neyða það til að fara í gegnum þessa bók. Ég segi ykkur, ég þurfti að líkamlega þvinga mig til að fletta blaðsíðunum í bókinni, svo hræðileg er hún. Ég sat, skrifaði, nuddaði augun og fingurnir skulfu þegar ég fletti blaðsíðu eftir blaðsíðu eftir blaðsíðu og sá að endirinn var enn fjarri.
Svo hvað gerði ég til að halda upp á frelsi mitt frá leiðinlegum þýskum kennismiðum? Nú, ég fór beint á vídjóleiguna og tók lélegustu myndina sem ég fann með sprengingum. Mmmmmm, Python II. Lélegri mynd hef ég aldrei séð, og ég hef séð þær margar lélegar. Í stuttu máli fjallar Kyrkislangan um áttatíumetra kyrkislöngu sem hefur verið búin til af bandaríska hernum í tilraunaskyni. Af einhverri óskiljanlegri ástæðu sleppur hún í Tsjetsjeníu og drepur þar heila rússneska herstöð. CIA ræðst inn í herstöðina með hjálp bandarísks vörubílstjóra og rússneskri eiginkonu hans (don't even ask) og slangan drepur alla nema vörubílstjórann og gelluna. Þetta er söguþráðurinn. Leikurinn er sá lélegasti sem ég hef séð, ever. Handritið er það lélegt að fyrsta setning bíómyndarinnar, sögð af yfirmanni hersins við hermenn sína, er "We are here in this top-secret Russian facility because..." Reyndar var handritið ekki nógu matarmikið til að fylla upp í níutíumínútur, svo leikstjóri myndarinnar tók það bragð til ráðs að hafa endurlit (skv. ensk-íslensku tölvuorðabókinni þýðing á "flashback") í fyrstu myndina. Það langbesta við myndina var þó snákurinn sjálfur. Hann hafði verið tölvuteiknaður, af miklum vanefnum greyið, svo að myndavélin var aldrei á slöngunni í lengur en þrjár sekúndur svo áhorfendur tæku ekki eftir lélegheitunum, og endurtók líka aftur sömu fimm grunnhreyfingarnar reglulega til að spara tölvuforritun. Allt í allt, mjög eftirminnilegt kvöld.
Jæja, og ég er síðan búin að sitja síðustu tímana og slúðra um allt og alla í deildinni. Það eru komnar reglulega juicy sögur upp á yfirborðið; reyndar svo juicy að ég get ekki endurtekið þær. Þetta er allt mjög furðulegt í enskudeildinni. Svo margir eru hérna aðeins í eitt ár, að til þess að bæta upp fyrir þennan tíma er eins og allir stofni til ofsakenndra vinskapa. Við vitum allt um alla og allir vita allt um okkur. Við hittumst á hverjum degi og hringjum í hvort annað tvisvar á dag. Við eyðum morgnunum, dögunum, kvöldunum saman og sumir jafnvel nætunum. Very very weird. Jæja. Nóg um það. Er farin að sofa. Edward Said er á morgun og ég verð að vera tilbúin til að segja eitthvað gáfulegt um þvæluna atarna. Ætla að lesa allar "Literary Theory for Dummies" bækurnar sem ég á á morgun, til þess að stela einhverri afar djúphugsaðri greiningu um Lukács og leiðindi hans.
01:48