föstudagur, janúar 17
Það er búið að vera gaman í dag. Spil og nýbakað brauð, og kjöt í kvöldmatinn í fyrsta skipti í þrjár vikur. Og síðan eru auðvitað allir að koma aftur heim til New York. Borgin er búin að vera svo tóm undanfarnar vikurnar -- tóm og gráguggin -- en núna fer þetta allt að koma. Á morgun er gengið aftur komið saman, og við munum auðvitað hittast til að halda upp á það.
Og síðan byrjar skólinn næsta þriðjudag. Þá fer heilinn loksins aftur í gang, en hann hefur starfað á hálfhraða síðustu vikurnar. Þið hafið líka kannski tekið eftir því hve pistlarnir verða styttri og styttri. Hef afar litla þolinmæði við að sitja við tölvuna og skrifa, þegar ég get lagt mig í nýja sófann minn og lesið bækur meðan ég dotta. En þetta fer allt að batna í næstu viku...
Ú hú hú. Ég er komin í skap til að þenja mig. Ég er nebbnilega búin að skrifa niður lista af því sem hefur gerst fyrir mig í síðustu viku, og ég á eftir að segja frá. Þetta minnir mig á Tristram Shandy eftir Laurence Sterne. Tristram Shandy er ein af elstu skáldsögunum sem skrifaðar hafa verið (1760). Á sama tíma er Tristram Shandy líka ein af skáldsögunum sem notar öll stílbrögð sem hafa síðar verið "uppgötvaðar" af seinni tíma spámönnum, eins og módernistunum. Góð bók og ein af fáum sem við getum í allri einlægni sagt að sé "á undan sínum tíma".
En nóg um það. Tristram Shandy fjallar sem sagt um Tristram Shandy sem er að skrifa sjálfsævisögu sína. Eina vandamálið er að það tekur hann svo langan tíma að lýsa ævi sinni að honum reiknast sem svo að þegar hann er búinn að lýsa, tja, fyrsta ári lífs síns, þá er hann búinn að vera að skrifa í tíu ár. Sem, eins og grunnskólanemar geta reiknað út, þýðir að honum tekst aldrei að klára að skrifa um ævi sína, því að skrifin taka svo langan tíma. "Blogg"fyrirbærið er shandískt. Kannski ætti ég í rauninni bara að fara að skrifa stikkorð niður, til að taka ekki frá tíma mínum sem ég þarf á að halda til að lifa. Tökum til dæmis:
Underground og partí
matargerð og kartöflur
komment vs. athugasemdir
íslenska sem fræðimál
Púkkner og níðrímur
sálfræði og ég
Þetta er það sem gerðist í síðustu viku. Þurfið þið að vita meira? Það er algjör tímaeyðsla að fara og vinna markvisst úr þessum lista. Ég tek fyrir t.d. fyrsta umræðuefnið, Underground og partí, skrifa pistil um það, slekk á tölvunni, fer að sofa, vakna aftur, fer út, kem aftur, kveiki á tölvunni, lít á listann, strika út umræðuefnið og uppgötva mér til mikillar skelfingar að tvö ný viðfangsefni hafa bæst við. Þetta tekur engan enda. Lífið er ekki einhver ævisaga. Það er enginn byrjun, endir eða miðja. Bara same old same old í mismunandi röð, stærðum og gerðum. Sífelldar endurtekningar sem verða leiðigjarnar eftir því sem á líður. Og aldrei getur dagbókarhöfundur náð að halda við lífinu í færslum sínum.