föstudagur, desember 27
Jæja já, þetta hefur verið mikill hasardagur í stórborginni, þó að undir lokin hafi komið í ljós að enginn var þetta háskaleikur. Litla Þórey fór á spítala. Hún vaknaði í morgun með fimm millimetra þykk augnlok og gat ekki opnað augun til fulls. Binna hringdi auðvitað strax í elsku Ernu sem er búin að vera hérna í eitt og hálft ár, og fékk þau ráð að hringja í Columbia Health Services, til að fá upplýsingar hvað við ættum að gera. Eftir að hafa beðið í símanum í fimm mínútur, verið skellt á mig einu sinni, komst ég í samband við þjónustufulltrúa sem sagði að vegna þess að Þórey væri ekki nemandi í Kólumbíu myndu þau ekki hjálpa henni og skellti á mig aftur. Svo við brunuðum niður á spítala, St. Luke's niðrá 110 stræti og Amsterdam og skráðum hana inn í neyðarmóttökuna. Yndisleg kona sem hlýtur að heita Rósa, þó að það hafi ekki staðið á nafnspjaldinu hennar, tók niður allar upplýsingar um hana og blóðþrýsting og sendi hana beint í skoðunarherbergi. Eftir nokkra bið kom svo Röddin. Dr. Coleman, kona með rödd sem fól í sér umhyggju en samt authority, djúp og hljómfögur, gekk inn og spurði "What have you been doing to yourself". Röddin (ég vildi bara segja hérna að vinkona mín Unnur sem er að læra læknisfræði er með alveg eins rödd, sem á örugglega eftir að róa niður margan sjúklingin þegar hún útskrifast eftir fimm ár) lokaði herberginu og grey Binna var skilin eftir í biðstofunni, án bóka (þar sem ég hafði verið rifin á fætur klukkan átta og drifin út án þess að geta hugsað nógu langt fram í tímann að stinga niður einni eða annarri bók). Eftir fimmtán mínútur er öllu lokið. Þórey hefur verið stungin í rassinn, með sterasprautu og antihistamíni, Röddin hefur sagt henni að fara í ofnæmispróf þegar hún kemur aftur heim, og við erum send niður í skrifstofu til að borga fyrir heimsóknina (rúmlega 500 bandaríkjadalir, eitthvað um 50,000 íslenskar krónur) og við biðjum um að fá reikninginn sendan svo við getum sent hann beint til Tryggingastofnunarinnar. Og eftir langa og stranga bið í apótekinu til að fá meiri stera (ég er að segja ykkur það, að Þórey getur núna rakað nafnið sitt í hárvöxtinn sem sprottið hefur á brjóstkassanum), förum við heim, dauðþreyttar, og sofnum svefni hinna réttlátu. (Þórey biður mig hérna um að bæta að eina ástæða þess að hún sofnaði aftur var að sterarnir hafa þá aukaverkanir að fólk uppdópast og sofnast. Ég var bara þreytt og löt.) Við vöknum aftur klukkan hálffjögur, og horfum á Cartoon Network, rífumst um hvert við eigum að fara. Kemur í ljós að það er of seint að fara í Harlem þar sem það er að fara að dimma, og tvær ljóshærðar ungar útlenskar stúlkur ganga ekki um í Harlem að nóttu til. Svo núna erum við á leiðinni í bíó niðri í Lower East Side. Við erum að fara að sjá Bowling for Columbine til þess að geta bitchast í friði um hvað það er dýrt og ömurlegt hérna í Bandaríkjunum. Mazeltov.
17:38