Dagbók
Myndir
Greinar
Krækjur
Senda póst

mánudagur, október 21
 
Kæra dagbók,

Í dag sá ég guð. Jacques Derrida kom í heimsókn til Kólumbíu og hélt fyrirlestur. Derrida er maðurinn sem hefur trónað hátt yfir höfðum okkar bókmenntafræðislubba síðan hann vakti fyrst alþjóðaathygli á sjöundaáratugnum. Derrida er maðurinn sem hélt fyrirlestra í París á byltingarárunum og var það vinsæll að þúsundir mættu á hvern fyrirlestur og tróðu sér í hvert horn og hverja gluggakistu. Derrida er maðurinn sem er sá síðasti af stóru frönsku karlpóstmódernistunum sem er enn á lífi og fyrir það á hann sérstakt hrós skilið... Og ég sá hann. Ég sá hann lesa, þ.e.a.s. að tala um lestur en lesa ekki, ég gekk framhjá honum á kampus og ég starði og tók myndir með litlu vefmyndavélinni minni (smá innskot: varðandi nýjar myndir á síðuna, það er svo mikið drasl í skrifstofunni minni að ég hef ekki séð snúruna sem tengir myndavélina við tölvuna í langan tíma. Mikið yrði það poignant að ég, sem tók fjórar myndir af goðinu, gæti síðan aldrei séð þær. Mikið yrði það derridískt...).

Derrida. DERRIDA. DeRRiDa. o.s.frv.

Derrida hefur haft gífurleg áhrif á bókmenntafræðina í dag. Hann er tískuviðbrigði (ef tísku má kalla þegar hugsunartengsl hans hafa haft áhrif á alla orðræðu nútíma bókmenntafræði) sem er upphaf og endir, miðja og jaðar bókmenntafræð-ísku. Þar sem Derrida segir sjálfur að ekki er hægt að túlka eða greina texta án þess að breyta þeim, án þess að eyðileggja þá, afbyggja og byggja upp á nýtt í nýrri mynd, tel ég því nauðsynlegt núna á þessum tímapunkti að leyfa honum sjálfum að tala (þegar ég segi að ég ætla að leyfa honum sjálfum að tala, þá er ég auðvitað að tala gegn sjálfri mér, þar sem við á Íslandi stöndum frammi fyrir tveimur skilafrestum til að skilja Derrida. Við getum ekki lesið franska frumtextann og túlkað hann, heldur verðum við að lesa íslenska þýðingu (þ.e. túlkun, eyðileggingu, uppbyggingu) á franska frumtextanum og byggja út frá honum.)

Í ritgerð sinni "Formgerð, tákn og leikur" sem birtist í íslenskri túlkun Garðars Baldvinssonar í bókinni Spor í bókmenntafræði 20. aldar segir Derrida (lesist: íslensk uppbygging í formi/nafni Derrida):

Viðburðurinn sem ég kallaði rof...kann að hafa komið fram þegar farið var að hugsa um, þ.e.a.s. endurtaka, formgerðareðli formgerðarinnar, en sú er einmitt ástæða þess að ég sagði þennan klofning vera endurtekningu í fyllstu merkingu þess orðs. Upp frá því var nauðsynlegt að hugsa um lögmálið sem á einhvern hátt stýrði þessari þrá eftir miðju þegar formgerðin var að myndast en einnig um það ferli táknunar sem fyrirskipar tilfærslu og víxl þessa lögmáls miðjunálægðar; miðjunálægðar sem þó hefur aldrei verið hún sjálf heldur alltaf færð út fyrir sjálfa sig inn í staðgengil sinn... Upp frá þessu varð án efa nauðsynlegt að hugsa sér að það væri engin miðja, að miðja í formi nálægrar-veru væri óhugsandi, að miðjan ætti sér engan náttúrulegan sess, að hún væri ekki fastur staður heldur virkni, eins konar ekki-staður þar sem óendanlegur fjöldi tákn-víxlana brygði á leik. Það var á þessari stundu sem tungumálið flæddi yfir vettvang hinna fjölþættu spurninga, á þessari stundu sem allt, í fjarveru miðju eða upphafs, varð að orðræðu -- svo fremi að við getum sæst á það orð -- þ.e.a.s. að kerfi þar sem hið miðlæga táknmið, hið upphaflega og yfirskilvitlega táknmið, er aldrei fyllilega nálægt nema í kerfi mismuna. Fjarvera yfirskilvitlega táknmiðsins þenur vettvang og leik táknunarinnar út í hið óendanlega.

Þarna kemur Derrida inn á margt það sem hann átti eftir og á eftir að fjalla um á lífsferli sínum. Hann talar um þetta rof í skilningi sögunnar og í hugsun mannsins, þegar ekki er hægt lengur að hugsa um staðreynd sem sannleika, um söguna sem sanna, um tungumálið sjálft sem rétta birtingarmynd þess sem það reynir að lýsa. Í heimi Derrida er allt mögulegt. Táknin sem ekki eru til lengur bregða á leik í mannlegri hugsun. Textar vísa fram og til baka, afturábak og áfram en samt aldrei í neitt. Því það er engin miðja. Það er enginn sannleikur. Það eina sem er til er óendanleg fjarlægð merkingarinnar og darraðardans tungumálsins.

Derrida er guð. Og ég sá hann í dag.

Smá innskot: af hverju eru Ítalir svo brilljant. Ég sver. Ég fór í The Italian Institute í dag og hello Fabío! Þegar ég starði ekki á Derrida, starði ég á manninn sem sat við hliðina á honum. Early thirties. Ítali. Þriggja daga skuggi af skeggi á sterkbyggðum kinnbeinunum. Ólífubrúnt andlit. Svartar buxur, svört rúllukragapeysa og svartur flauelsjakki. Gelað hár, hrafnsvart (ooh-la-la). Og eyrnarlokkur í vinstra eyra... Stór eyrnarlokkur, danglandi.

Fyrir alla sem hafa áhuga á að læra meira um Derrida, geta nálgast Derrida: The Movie. Auglýsingatextinn á myndinni er eftirfarandi: "What if someone came along who changed not the way you think about everything, but everything about the way you think." Á auglýsingaspjaldinu birtast fjöldi mynda af Derrida í svörtum jakka. Hann kíkir út undan sér á myndavélina, augnaráðinu beint til áhorfandans en forðast samt að ná augnsambandi. Axlirnar kreppast í svörtum jakkanum og hann ýtir þeim út undan sér gegn mótvindi sem blæs á hann. Pípan lafir kæruleysislega úr munni hans, rétt eins og hann bjóði áhorfandanum að reyna að ná henni úr munni sér. Silfurhvítt hárið, stuttklippt, er greitt upp í pönkaða odda sem reyna að ná upp til grámyglulegs himinsins.

15:00

Comments: Skrifa ummæli

Efst á síðu

This page is powered by Blogger.
Skyndikrækjur
Bríet.is
Þórey Mjallhvít

Kólumbíuháskóli
Enskudeildin í Kólumbíu
Húsið mitt

Aðrir vefleiðarar
Eagle & Weasel
Sveit(t)astelpan
Sparkle Motion
Fláráður
Rói
Brantley
Fellow librarian
Atallus
Ylfa
Þórey Mjallhvít
DíDee
Diary of a Feminist


Eldri greinar
<< í dag




2002
brynhildur