sunnudagur, september 15
Jæja já! Það er gaman að sjá hve margir hafa orðið við beiðni minni og komið með athugasemdir við gráa litinn á síðunni.
Annars er einhver búin að setja mig á póstlista hjá Sacred Pages, trúarlegri heimasíðu. Fæ núna reglulega tölvupósta með bæn dagsins. Bæn dagsins, ef þið hafið áhuga, er svo mikið sem:
O my God, relying on your infinite goodness and promises, I hope to obtain pardon of my sins, the help of your grace, and life everlasting, through the merits of Jesus Christ, my Lord and Redeemer.
Núna er semsagt sunnudagskvöld og ég er á leiðinni í frönskupróf á morgun. Tungumálakennsla hérna gengur út á það að hafa skyndipróf í hverri viku, en þetta form, þarf ég varla að taka fram, hentar illa fólki með svæsna próffóbíu eins og yours truly. Ein ástæðan fyrir því að ég sit hérna og er að skrifa loksins eitthvað á dagbókina er að ég get ekki einu sinni barið mig í að opna frönskubókina og byrja að læra. Svo í staðinn ætla ég að koma með smá sögu um hvernig helgin mín er búin að vera. Brace yourselves!
Föstudagurinn 13. september. Vaknaði varla upp um morguninn. Samansöfnuð þreyta vikunnar olli því að ég sá heiminn í ljósrauðu ljósi í gegnum blóðstokkin augu og í hvert skipti sem ég opnaði munninn passaði ég mig að stama a.m.k. þrisvar og bæta við fjórum "héddna" og "öhm". Dagurinn hófst á kynningu í bókasafni Kólumbíuháskóla þar sem kynntar voru allar rafrænu útgáfunar sem hægt er að nálgast í gegnum intranet Kólumbíu háskóla. Fjöldi þessara útgáfa er óhugnanlegur, og það merkilegasta sem ég tók með mér heim úr þessum tíma var að komast að því að allar útgáfurnar nota fátækar konur í Malasíu til að flytja texta yfir á rafrænt form. Ekki nóg með að þær skrifi upp alla gullmola vestrænnar menningar, heldur þurfa þær að gera það þrisvar til að koma í veg fyrir stafsetningavillur og misræmi milli frumtexta og rafrænnar útgáfu. Move over Nike og Adidas. MLA og Random House ætla að taka við kólóníuhlutverkinu.
Eftir skólann þennan daginn fórum við John og fengum okkur bjór á suddalegri biker's krá hérna á 110 stræti. John er nýbyrjaður í miðaldafræði hérna í skólanum og hefur það við sig að hann er tuttugu ára (!), á greinargott safn af Hawaiiskum blómaskyrtum sem hann gengur í dags daglega, og finnst jafnvel ennþá skemmtilegra að tala en mér (strákurinn veit meira að segja hvernig á að bera fram Hawaii, þ.e. ekki sem Havæ, heldur sem Hava-í). Eftir bjórinn ákváðum við að fá okkur kvöldmat og ég fékk loksins að sjá Little India, eina götu hérna neðarlega í borginni sem er troðfull af lélegum indverskum veitingastöðum.
Laugardagurinn 14. september. Nokkur okkar höfðum tekið okkur saman um að heimsækja Brooklyn Brewery verksmiðjuna þennan dag og fá túrinn um bjórverksmiðjuna og drekka fullt af framleiðslunni. Þegar á hólminn var komið fækkuðum við smám saman svo að undir lokin vorum það bara við John (sjá hér að ofan) sem komumst alla leið. Brooklyn Brewery er staðsett í... Brooklyn og mér var ekki um sel að fara svona langt út í "sveit". En kemur í ljós að Brooklyn hefur nú margt til að mæla með sér. Það var reyndar mikið sjokk að ganga um götu og heyra ekki í umferðinni (umferðarhávaðinn hérna á Manhattan er ótrúlegur, og allir hérna eru hálfheyrnarlausir). En lifandi götulíf var þarna í sveitinni. Flottar flóamarkaðsbúðir og blóm í gluggunum blikkuðu kankvíslega til vegfarenda sem allir voru ungir og "hip".
Brooklyn bjór er, bara svo þið vitið, alveg skelfilega vondur. En þessi heimsókn í verksmiðjuna veitti mér ákveðna innsýn inn í heim bandarískrar ölgerðar. Verksmiðjan var stofnuð af gæja sem bjó lengi í Beirút á níunda áratugnum. Hann lifði þar miklu ævintýralífi og var m.a. einu sinni tekinn til gíslingar. Það eina sem hann var að ekki að meika við Lebanon, mekka og upphaf siðmenningar, var að ekki var hægt að nálgast bjór með góðu og greiðu móti. Svo hann byrjaði að brugga sjálfur og þegar hann flytur aftur til Bandaríkjanna undir lok áratugarins, stofnar hann þessa verksmiðju.
Verksmiðjan sjálf er mjög lítil. Allur bjórinn sem þar er framleiddur er framleiddur í einu herbergi (!). Þetta er auðvitað ekkert miðað við Egilsölgerðina á Akureyri og Carlsberg verksmiðjuna í Kaupmannahöfn, þær verksmiðjur sem ég hafði áður heimsótt. En á móti kom, þá var BB miklu "kúlari". Leiðsögumaðurinn okkar slagaði og bar gæði bjórsins síns fullkomið vitni með ástandi sínu og hljómsveit spilaði úti á götu fyrir fólkið sem var í heimsókn. Og síðan voru það prófanirnar. Kútar eftir kúta eftir kúta voru dregnir fram og allir gerðu sitt besta að prófa allar vörurnar.
Á leiðinni heim var síðan komið heljarinnar mikið götupartí í Brooklyn og hljómsveitir og götuspilarar hvaðanæva úr Bandaríkjunum léku listir sínar. Ég var komin í massa stuð undir hljómfögrum takti listamanna frá New Orleans þegar ég var skyndilega dregin burt, heim til vondu Manhattan.
Sofnaði kl. tíu. Svaf í gegnum partí herbergisfélaga míns Hailey sem var með stuð til klukkan hálf fimm fyrir aðra bissnessnemendur.
Sunnudagurinn 15. september. Vaknaði kl. fjögur um morguninn þegar síðustu gestir Haileyar eru að fara. Einhvern veginn tókst mér ekki að sofna aftur þar sem ég hafði farið svo snemma að sofa svo ég skemmti mér við að lesa reyfara þangað til kl. hálftíu þegar ég dragnaðist upp úr rúmi og fór að sækja rúmið mitt (keypt á þrjátíuþúsund frá vinkonu Haileyar). Þegar heim var komið ætlaði ég alveg að hjálpa Hailey að taka til, but hello! þreytt! löt! Lagðist upp í sófa og horfði á Buffy sem elsku Erna og Mörður höfðu tekið upp fyrir mig. Sofnaði síðan í smá stund í nýja og þægilega rúminu mínu, vaknaði, lærði smá, starði á frönskubókina mína, höndlaði þetta ekki, fór á netið þar sem ég er núna til að procrastinata smá.