laugardagur, ágúst 31
Jæja, ég á nú afmæli í dag. Whoopeee. Er orðin 24 ára (gisp).
Eins og sést að þá komst ég loksins á netið heiman frá mér. Ég get hins vegar ekki sagt að þetta sé mikill sigur. Ég var orðin svo örvæntingarfull yfir netleysinu mínu (kapalguttarnir sem ætluðu að tengja mig voru að hringja og segjast koma mögulega á laugardaginn í NÆSTU viku) að ég tók skyndiákvörðun, kveikti á tölvunni og hringdi í íslenska upphringinúmerið mitt. Svo ég er á netinu að borga alþjóðleg gjöld fyrir símann. Gisp. Mig langar í sítengingu!
Það verður nú mikið stuð hjá mér í dag á afmælisdaginn. Það fyrsta sem ég þarf að gera er að taka til í þessari íbúð og skúra hana svo sem tvisvar sinnum. Ég er búin að vera í óvenju hreinlátu stuði síðan ég flutti inn og hef skúrað þrisvar sinnum síðan ég flutti inn (fyrir tveimur vikum). Íbúðin er samt ennþá með það óhrein gólf að ég þarf aðeins að ganga um berfætt í tíu mínútur og iljarnar eru orðnar svartar. Þessi óhreinindi eru arfleifðar fimmtíu ára af Bandaríkjamönnum að ganga um í skónum. Fíflin. Og það er hægara sagt en gert að skúra hérna. Skúringarkústarnir eru ekkert annað en lítið skaft með litlum þráðum sem hanga út úr og eina sem hægt er að gera er að flengja óhreinindunum um fram og til baka, hægri og til vinstri. Reyndar kom Hailey í síðustu viku með nýjasta undratækið: The Self Soaping and Watering Wonder Mop. Algjört æði. Svo við erum að skúra og vatnið er búið á gólfinu. Í stað þess að þurfa að lyfta upp kústinum og dýfa honum í vatn og vinda hann og byrja aftur, þá ýtum við bara á takka, og meira vatn sprautast út úr skúringarkústnum!
Þegar ég er búin að taka til í íbúðinni tekur við hörku matseld. Ég þekki akkúrat fjórar manneskjur í Bandaríkjunum. Tvær þeirra eru ekki í bænum sem stendur. Svo ég hef lítið matarboð í kvöld fyrir þrjá! Ah fallið! Frá vinsælustu manneskjunni í bænum til... harharharhar
11:47